Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra greindi frá því við opnun gigtardeildar B-7 á Landspítala Fossvogi í dag að slakað yrði um helming á hagræðingarkröfu sem stjórnvöld hefðu lagt á Landspítala - háskólasjúkrahús á þessu ári vegna kostnaðar við sameiningu sérgreina og tilflutning á starfsemi. Heildarkrafan hefur verið 800 milljónir króna. Stjórnendur LSH hafa ítrekað lýst yfir því að útilokað væri fyrir spítalann að standa undir þeirri kröfu nema með því að skerða þjónustuna verulega. Ráðherra kom inn á það í ávarpi sínu til starfsmanna gigtardeildar og almennra lyflækninga B-7 að stjórnendur Landspítala - háskólasjúkrahúss og ráðuneytis hefðu að undanförnu átt viðræður um þetta mál. Niðurstaðan væri sú að hagræðingarkröfunni yrði ekki fylgt fram að svo stöddu. Hins vegar yrði um mitt ár metinn kostnaður sem væri við sameiningu sérgreina á sjúkrahúsinu og slakað á hagræðingarkröfunni sem honum nemur. Stjórnendum Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur verið falið að ganga ríkt eftir að ná fram 400 milljóna króna hagræðingu á árinu, í stað 800 milljóna, eins og til stóð. Tillaga um þá hagræðingu hefur verið unnið af yfirstjórn og sviðsstjórum spítalans.
Heimsókn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á spítalann var óformleg. Ráðherra kynnti sér starfsemi á nokkrum deildum og fagnaði með starfsfólki á bráðamóttöku á Hringbraut og gigtardeild B-7 í Fossvogi. Á báðum stöðum voru tertur í tilefni af umfangsmiklum breytingum á slysa- og bráðaþjónustu sjúkrahússins í dag, 1. mars 2002.
Myndir:
Anna Sigríður Þórðardóttir deildarstjóri á B-7 ávarpar heilbrigðisráðherra
og starfsmenn við opnun B-7 í Fossvogi. Þangað var verið að flytja gigtardeild 14G við Hringbraut.
Á deild B-7 er líka hágæsludeild.
Heilbrigðisráðherra með hópi stjórnenda í tertukaffi á bráðamóttökunni við Hringbraut.