Forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur með yfirlýsingu framselt framkvæmdastjórum og sviðsstjórum tiltekið vald á sviði starfsmannamála, samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með því er þeim veitt heimild til að taka ákvarðanir um atriði sem nefnd eru í upptalningu. Til grundvallar framsalinu er stjórnskipulag LSH, ásamt erindisbréfum og starfslýsingum þeirra stjórnenda sem við á. Þrátt fyrir framsalið hefur forstjóri samhliða heimildir til ákvarðana um sömu atriði og getur afturkallað framsalið án fyrirvara. Sá sem valdið er framselt til hefur ekki heimild til að framselja það áfram nema til hærra setts yfirmanns sem fer með umrætt vald.
Ástæða fyrir framsalinu er meðal annars sú að umboðsmaður Alþingis hefur bent á að eðlilegt sé að þeir sem ráða starfsfólk til spítalans hafi til þess skriflegt umboð. Auk þess er það góð stjórnsýsla að öllum sé ljóst hverjir fara með ákvörðun um ráðningar á spítalanum.