Landspítali - háskólasjúkrahús
Skrifstofa forstjóra
Fréttatilkynning 10. maí 2002
"Vordagar LSH" verða 14. til 16. maí 2002. Þeir eru árlega í maí í tengslum við ársfund Landspítala - háskólasjúkrahúss, nú öðru sinni. Almenningur er velkominn.
"Vísindi á Vordögum" í Salnum í Kópavogi 14. maí kl. 13:00. Kynning á mjög fjölbreytilegu rannsóknarstarfi vísindamanna á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Reynir Tómas Geirsson forseti læknadeildar Háskóla Íslands flytur erindi um mikilvægi vísindavinnu á háskólasjúkrahúsi. Á eftir verða eftirfarandi rannsóknarverkefni kynnt með erindum:
· Bólusetning þungaðra músa og vernd afkvæma gegn pneumókokkasýkingum
· Könnun á algengi síþreytu meðal Íslendinga á aldrinum 19-75 ára
· Mígren með fyrirboða, er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir óhvött ("unprovoked") flog hjá börnum
· Reynsla aldraðra einstaklinga, sem farnir eru að líkamlegri heilsu, af lífsgæðum á hjúkrunarheimilum
· Algengi stökkbreytinga í hemochromatosis (HFE) geni hjá Íslendingum
Eftir erindin kynnir Magnús Pétursson forstjóri nýja vísindastefnu Landspítala – háskólasjúkrahúss og úthlutað verður í fyrsta skipti úr "Vísindasjóði Landspítala – háskólasjúkrahúss" sem stofnaður var á LSH árið 2001.
Vísindi á Vordögum: Veggspjaldasýning um rannsóknarverkefni á flestum deildum LSH verður opin frá kl. 13:00 miðvikudaginn 15. maí í K-byggingu, Landspítala Hringbraut. Höfundar koma kl. 15:00 og kynna veggspjöld sín.
Ársfundur Landspítala - háskólasjúkrahúss hefst kl. 15:00 fimmtudaginn 16. maí. Jón Kristjánssonar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flytur ávarp, starfsmenn verða heiðraðir og Lúðrasveit Reykjavíkur leikur. Guðjón Magnússon rektor Norræna heilbrigðisháskólans í Gautaborg flytur erindi um viðhorf stjórnvalda á Norðurlöndum til sjúkrahúsrekstrar.