Ársfundur LSH í Salnum 16. maí 2002
Ávarp Guðnýjar Sverrisdóttur formanns stjórnarnefndar
Starfandi heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich,
starfsfólk Landspítala - háskólasjúkrahúss og gestir!
Á tveggja ára afmæli Landspítala - háskólasjúkrahúss lítum við fram á veg og treystum því að það mikla starf sem unnið hefur verið við mótun sjúkrahússins hafi verið og verði þjóðinni til heilla. Við höfum verið að byggja upp og viljum líka trúa því að við höfum verið að bæta. Því uppbyggingarstarfi lýkur aldrei en það nást mikilvægir áfangar þegar verið er að raða heildarmyndinni saman.
Undanfarið ár var sem fyrr unnið af dugnaði og festu að því að bæta þjónustu við sjúklinga, efla vísindastarf og styrkja kennslu heilbrigðisstétta. Nærtækt er að nefna það nýjasta, það er samkomulag sem nú hefur náðst milli Háskóla Íslands og Landspítala - háskólasjúkrahúss um samstarf þessara stofnana. Á ársfundi spítalans í fyrra var undirritaður samstarfssamningur milli Háskóla Íslands og Landspítala. Nú fögnum við nýgerðum viðbótarsamningi sem unnið hefur verið að hörðum höndum í heilt ár. Þessi nýi samningur er mikilvægur og á eftir að treysta verulega samstarf stofnananna. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka háskólarektor, forsetum heilbrigðisvísindadeilda Háskólans, svo og öllum öðrum starfsmönnum Háskólans og spítalans sem unnu að samningsgerðinni. Sú framtíðarstaðsetning sem valin var í vetur fyrir Landspítala - háskólasjúkrahús undirstrikar mikilvægi tengsla þess við Háskólann. Nefnd heilbrigðisráðherra komst þá að þeirri niðurstöðu að framtíðarsjúkrahúsið ætti að vera við Hringbraut, ekki síst vegna nálægðarinnar við Háskóla Íslands. Nú er brýnt að halda áfram og stjórnarnefndin hvetur til þess að undirbúningi og framkvæmdum við framtíðaruppbyggingu Landspítala verði hraðað eins og kostur er.
Á enn fleiri vegu hefur verið á borði stjórnarnefndar hvernig yfirstjórn Landspítala getur stutt vísindastarf á stofnuninni með styrkum hætti. Stofnað hefur verið vísindaráð og jafnframt vísindasjóður. Vísindaráð á meðal annars að vera stjórnarnefnd, framkvæmdastjórn og skrifstofu kennslu vísinda og þróunar til ráðgjafar um vísindastarf á spítalanum. Jafnframt á það að annast kynningu á vísindaverkefnum starfsmanna. Vísindasjóðnum er hins vegar ætlað að styrkja starfsmenn í vísindastarfi. Nú hefur auk þess verið sett vísindastefna fyrir Landspítala - háskólasjúkrahús. Hún var kynnt á sérstökum vísindadögum sem haldnir eru nú í tengslum við ársfund spítalans. Vísindastefnan er leiðarljós og hvatning fyrir stjórnendur og starfsmenn og um leið yfirlýsing Landspítala um stuðning við þátttöku starfsmanna í vísindastarfi.
Landspítali - háskólasjúkrahús var rekinn með 487 milljóna króna halla 2001, sem var um 2%, en á föstu verðlagi kostaði reksturinn 1% minna en árið 2000 og 1,5% minna en árið 1999. Slíkt verður að teljast góður árangur þegar horft er til mikilla breytinga í rekstri, sameiningar sérgreina og aukinnar starfsemi á mörgum sviðum. Þessi árangur hefur fyrst og fremst náðst vegna dugmikillar framgöngu starfsmanna spítalans. En þótt tekist hafi að draga úr rekstrarkostnaði sjúkrahússins er óásættanlegt að reka stofnunina með halla ár eftir ár. Það skapar mikla greiðsluerfiðleika hjá spítalanum og þar sem halli fyrri ára fylgir yfir áramót er auðséð að slíkt gengur ekki til lengdar. Að mínu mati eru aðeins tveir kostir í stöðunni,. Sá fyrri er að halda sig innan ramma fjárlaga og þá trúlega að draga úr þjónustu. Hinn er sá að stjórnvöld geri sér ljóst að það fer illa saman að hafa sjúkrahúsið á föstum fjárlögum en geta á sama tíma aðeins að litlu leyti temprað aðstreymi að sjúkrahúsinu. Til að hægt verði að breyta fjármögnun spítalans hefur verið haldið áfram að færa DRG-kerfi inn í starfið. Það kerfi gerir kleift að bera saman kostnað við einstök spítalaverk, við önnur sambærileg á alþjóðlegum vettvangi. Þessi samanburður hefur nú þegar sýnt sig að vera Landspítala - háskólasjúkrahúsi ákaflega hagstæður.
Á síðustu mánuðum hafa biðlistar heldur styst. En betur má ef duga skal. Teknar hafa verið í notkun nýjar og fullkomnar skurðstofur og rökrétt er að nýta þá aðstöðu til fulls, gera fleiri aðgerðir og stytta biðlistana verulega. Biðlistar geta verið nauðsynlegir en það er böl ef þeir eru of langir.
Unnið var ötullega að sameiningu sérgreina og tilflutningi þeirra milli staða á árinu. Reynt hefur verið að finna bestu lausn á skiptingu sérgreina og nýta húsnæði og tækjabúnað vel. Stefnt er að því að sameiningu sérgreina verði að mestu lokið í byrjun næsta árs. Ljóst er að nokkur röskun hefur verið og verður á starfseminni meðan á breytingunum stendur, sem hlýtur mjög að reyna á þolrif starfsmanna. En hafa ber í huga að þegar breytingunum lýkur verðum við bæði með betri og hagkvæmari stofnun, betri starfsaðstöðu og bætta þjónustu við sjúklinga. Að því er stefnt.
Á síðasta ári var mikið unnið að endurbótum á húsnæði LSH. Áfram var unnið við nýjan barnaspítala, skurðstofur voru endurnýjaðar og ýmsar deildir, og ný líknardeild var tekin í notkun á Landakoti, svo fátt eitt sé nefnt. Þessi verk voru mjög brýn og var meiru varið til endurbóta á húsnæði árið 2001 en mörg undanfarin ár. Þessum endurbótum verður að halda áfram því sum húsakynni spítalans hafa lengi verið svelt í viðhaldi. Það sem veldur stjórnendum spítalans aftur á móti áhyggjum er að fé til tækjakaupa er alltof rýrt. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að tækjakostur sjúkrahússins þarf að vera góður og þar má aldrei tefla á tæpasta vað.
Góðir ársfundargestir!
Þegar skipulag Landspítala - háskólasjúkrahúss var ákveðið fyrir um tveimur árum var samþykkt í stjórnarnefnd að fyrir 1. október 2002 yrði meginskipulag spítalans yfirfarið. Það var ákveðið í ljósi þess að framundan voru umfangsmiklar breytingar með sameiningu og tilflutningi deilda. Nú er þessi endurskoðunarvinna að byrja. Stjórnarnefnd er einnig að skoða hvernig hún sjálf sinnir best því hlutverki sem henni er ætlað með tilliti til stefnumótunar, rekstrarstjórnunar, faglegrar uppbyggingar og eftirlits.
Starfsfólk sjúkrahússins leitast ávallt við að skila vönduðu starfi og þjóna sjúklingum af kostgæfni. Liður í því er að virða rétt sjúklinga til að koma á framfæri kvörtunum og ábendingum um það sem betur má fara og að bregðast við slíku á jákvæðan hátt. Innan stjórnarnefndar nýtur það stuðnings að ráða við sjúkrahúsið sérstakan starfsmann til að sinna málum af þessu tagi.
Þegar horft er til framtíðar verðum við líka að átta okkur almennt á stöðu Landspítala - háskólasjúkrahúss í heilbrigðiskerfinu, hvaða þjónustu við ætlum til dæmis að veita innan sjúkrahússins og hvaða þjónustu á einkareknum stofum. Í þeirri markaðshugsun sem ríkir mætti ætla að markaðurinn einn ætti að ráð því hver framvindan verður. Að mínum dómi er málið ekki svo auðvelt. Auk þess að þjóna sjúklingum hefur Landspítali ríkum skyldum að gegna í kennslu og vísindum. Það verður því að vera mikil breidd í starfseminni til að stofnunin standi undir því að vera háskólasjúkrahús.
Landspítali - háskólasjúkrahús leggur sig fram um að uppfylla kröfur almennings um þjónustu við sjúka, kennslu og vísindastörf en á um leið mikið undir velvilja og stuðningi almennings, félagasamtaka og fyrirtækja. Spítalanum bárust fjölmargar og dýrmætar gjafir á síðasta ári. Öllum gefendum eru færðar alúðarþakkir fyrir gjafir sínar og velvilja í garð spítalans.
Að lokum vil ég þakka öllum starfsmönnum Landspítala - háskólasjúkrahúss fyrir vel unnin störf á liðnu ári.