4. september 2002
Ágæta samstarfsfólk!
Í lok mars sl. skrifaði ég hugleiðingu, sem birt var á upplýsingavef spítalans, um stöðu hans og helstu viðfangsefni framundan. Sem áður, hefur ýmislegt gerst í starfinu sem vert er að rifja upp og þakka.
Mér reynist stundum gagnlegt að líta yfir starf okkar á liðnum tveim árum þegar mér þykir seint ganga og andstreymið meira en æskilegt er. Höfum það í huga að heilbrigðisþjónustan, m.a. rekstur sjúkrahúsa, á Norður-löndum og víða í Vestur-Evrópu hefur tekið miklum breytingum sl. áratug. Hér kemur margt til; erfiður fjárhagur, sérhæfð þjónusta er aðeins veitt á fáum vel útbúnum stöðum og almenningur á rétt á þjónustunni, oftast óháð búsetu og efnahag. Þá er hávær umræða um hvernig opinber heilbrigðisþjónusta verður best starfrækt samhliða því að einkarekstur eflist. Loks má nefna að betri menntun og símenntun er viðhorf dagsins og forsenda þess að ný þekking og tækni verði tekin upp hjá okkur eins og annars staðar.
Hér á landi hafa stjórnvöld ákveðið að sameina þrjá spítala í einn, stóran á okkar mælikvarða, þó hann sé það ekki á alþjóðlega vísu. Íbúafjöldi landsins er áþekkur og háskólasjúkrahúsin í Árósum eða Þrándheimi þjóna. Smæðin takmarkar þá sérhæfingu sem við getum boðið upp á hér á landi og á Norðurlöndum er vaxandi umræða um það hvort löndin eiga að hafa samstarf um sérhæfðustu þjónustuna.
Hvað hefur gerst á okkar vettvangi? Sjúkrahúsin hafa verið sameinuð og sérgreinum komið fyrir í húsnæði spítalans eins og best er talið. Nú í haust þarf að taka nokkrar veigamiklar ákvarðanir um staðsetningu sérgreina og ljúka að mestu flutningum á fyrri hluta næsta árs. Í meginatriðum hafa þessar breytingar gengið vel fyrir sig. Samningur hefur verið gerður milli LSH og Háskóla Íslands um samstarf þar sem tilgangurinn er að ábyrgð og skyldur hvors aðila eru skilgreindar. Þetta tel ég að hafi bæði verið tímabært og nauðsynlegt. Skipulag spítalans hefur nú verið í gildi í um tvö ár og dugað all vel þó svo það komi nú til endurskoðunar. Yfirmenn hafa verið valdir í svo til allar stöður þ.e. yfirlæknar og deildarstjórar. Sé litið til framtíðar þá hefur spítalanum verið valinn staður til uppbyggingar við Hringbrautina og það er árangur að útgjöld hafa haldist lítt breytt að raungildi í þrjú ár, án þess að þjónustan hafi verið skert. Ég bið fólk að hafa þessi atriði í huga þegar við skoðum stöðu spítalans nú og verkefnin framundan.
Fyrir hvað stendur Landspítali - háskólasjúkrahús og að hvaða marki keppum við? Er það starfsfólki og almenningi nægjanlega ljóst?
Ég trúi því að öllum sé ljóst hið þríþætta hlutverk LSH; þjónusta við sjúklinga, sem okkar megin viðfangsefni, fræðsla verðandi heilbrigðisstarfsfólks og loks öflun nýrrar þekkingar með athugunum og rannsóknum. Ekki er alltaf auðséð hvernig þessum þremur markmiðum verður best náð, en allt starfið þarf að hafa beina eða óbeina tengingu við þau.
Í bréfi mínu 25. mars sl. rakti ég fjölmörg verkefni sem unnið er að. Margt af því sem þar er rakið hefur náðst í höfn en annað gengið hægar en vænst var. Ánægjulegast er etv. samningurinn við H.Í. og setning vísindastefnu fyrir spítalann. Unnið er að því að setja stefnu um upplýsingaþjónustu og tölvumál sem og um fleiri þætti. Okkur hefur orðið ágengt í því að færa þjónustu nær fólki á landsbyggðinni með því að barnalæknar fara út um land með reglubundnum hætti og samningur við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri um samstarf er á lokastigi. Og nú er verið að koma sjúkraskrársafni spítalans í nútímalegt horf. Ákvörðun liggur fyrir að sameina öll söfn spítalans og uppfylla þannig reglugerðarákvæði frá 1991 um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál.
Nýbygging Barnaspítala Hringsins verður afhent í áföngum, fyrst um miðjan nóvember og að fullu í febrúar á næsta ári. Hér er gríðarlega mikilsvert framfaramál á ferðinni og liður í því að efla starfsemina. Þá verður að geta þess að öll megin viðhalds- og endurbótaverkefni á deildum og öðru húsnæði spítalans skv. áætlun, virðast nást á árinu.
Hvað hefur gengið hægar en við vildum?
Það er einkum þrennt. Fyrst er að nefna að fjármálin hafa reynst erfið. Í ársbyrjun var spítalanum gert að spara sem nemur 4% af veltu eða um 800 m.kr. Eftir viðræður við heilbrigðis- og fjármálayfirvöld var fallist á að spítalinn glímdi við 400 m.kr. og að hlaupið yrði undir bagga með 400 m.kr. í fjáraukalögum. Því miður stefnir nú í það að halli verði um 800-900 m.kr. þrátt fyrir að margt hafi verið gert til þess að halda aftur af útgjöldum. Það hefur ekki farið framhjá starfsfólki að hert hefur verið að starfseminni. Þetta er miður, en verður ekki umflúið.
Biðlistar, einkum eftir skurðaðgerðum, og gangalegur hafa löngum verið okkur þyrnir í auga. Svo er enn og líklegt að erfitt verði að komast hjá slíku miðað við þá fjármuni sem spítalanum eru ætlaðir. Hitt er vissulega lofsvert að skurðaðgerðum hefur fjölgað um 8% séu fyrri árshelmingur ársins í ár og í fyrra bornir saman. Allt kapp verður að leggja á það að skurðaðgerðum fjölgi um að lágmarki 10% milli ára til þess að sanna það og sýna að það mikla átak sem gert var í fyrra við að koma upp góðri aðstöðu skurðstofa og gjörgæslu skili sér í starfi. Biðlistum verður þó ekki eytt það er augljóst enda fjölgar íbúum og þeim sem eldri eru og þurfa á þjónustunni að halda. Nýlega hafa verið settar verklagsreglur um biðlista sem ég bið starfsmenn að kynna sér og vinna eftir.
Eftirtektarvert og þakkarvert er að í sumar sem leið tókst einkar vel að jafna álagi á legudeildum milli Hringbrautar og Fossvogs þó svo oft hafi verið knappt með mannskap.
Samningar við Íslenska erfðagreiningu hafa tekið lengri tíma en ég átti von á. Gerð rafrænnar sjúkraskrár er flókið, kostnaðarsamt og tímafrekt verkefni og spítalanum afar mikilsvert. Náist samningar ekki á næstu vikum er einsýnt að spítalinn verður að endurskoða stefnu sína í þessu efni.
Viðfangsefni haustsins eru fjölmörg eins og áður. Mér sýnist ekki ástæða að tína þar allt til en kýs fremur að leggja áherslu á sex viðfangsefni.
Í fyrsta lagi ákvað stjórnarnefnd spítalans árið 2000 að endurskoða og yfirfara meginskipulag spítalans fyrir októberbyrjun n.k. Að undanförnu hef ég rætt við nokkurn tug stjórnenda um álit þeirra á; núverandi skipulagi, skipun og starfi stjórnarnefndar og framkvæmdastjórnar, skiptingu spítalans í svið og um sérgreinar og undireiningar. Þessari vinnu miðar ágætlega og verða tillögur ræddar við sviðsstjóra spítalans og í stjórnarnefnd síðar í september þannig að tilkynna megi starfsmönnum um breytingar, ef einhverjar, fyrir eða um mánaðamótin september/október.
Í öðru lagi er afar brýnt að hlutverk spítalans verði skilgreint betur en nú er í ljósi breyttra starfa. Starfsfólk þekkir vel að göngu- og dagdeildar-starfsemin hefur verið að eflast en dregið hefur fremur úr langri legu á spítalanum. Þannig hefur meðallegutími styst verulega á fáum árum. Árið 1990 var meðallegutími 9,8 dagar en hann er nú 8,3 dagar þegar allt er talið. Sæmileg sátt þarf að nást um það hvaða starf skuli rækja af spítalanum og hvað skuli leysa af hendi á einkastofum. Öryggi sjúklinga, kennsluhlutverkið og fjölbreytni í starfi skiptir hér allt máli. Þetta þarf að hafa að leiðarljósi fremur en að flytja frá spítalanum allt sem mögulegt er að vinna utan hans. Heilbrigðisráðherra hefur óskað eftir því að spítalinn láti í ljósi skoðun á því hvaða verkefni skuli unnin innan spítalans og í hvaða mæli.
Í þriðja lagi verður unnið að því að marka spítalanum stefnu sem verði öllum starfsmönnum ljós og töm. Slík stefna er í raun safn fjölmargra þátta sem mynda eina heild ef vel tekst til. Rétt er að minna á að mörkuð hefur verið stefna í vísindamálum, starfsmannamálum og um innkaup, unnið er að stefnu fyrir upplýsingatækni og svona mætti lengi telja. Í haust og vetur er ákveðið að draga upp heildstæða mynd af stefnu spítalans. Með öðrum orðum setja honum einkennisorð eða samnefnara, stutta lýsingu á því fyrir hvað hann stendur og hvernig hann vinnur best í þágu skjólstæðinga sinna.
Í fjórða lagi er mikilvægt að höfða til almennings og sjúklinga um álit og skoðun á starfi spítalans. Bestu bandamenn spítalans eru jafnan þeir sem fá góða og skilvirka þjónustu þ.e. almenningur. Mikilvægt er að rækta samband við samtök sjúklinga því þau hafa álit á starfinu og veita aðhald með skoðunum sínum.
Í fimmta lagi verður haldið áfram að vinna að því að skilgreina háskólahlutverk spítalans. Fyrr á þessu ári náðust samningar milli spítalans og Háskólans um mikilsverð málefni. Áfram þarf að þróa samstarf stofnananna, auka það og dýpka.
Loks eru fjármálin áframhaldandi viðfangsefni. Unnið er nú að því hjá ríkinu að taka upp ný tölvukerfi fyrir fjármál og starfsmannastjórnun. Spítalinn er í fararbroddi stofnana ríkisins að taka nýjungarnar upp enda var það samdóma álit að spítalinn yrði að koma upp betri stjórntækjum um fjármál og starfsmenn en hann réð yfir. Þetta varð enn augljósara þegar sjúkrahúsin voru sameinuð þar sem ólík kerfi voru við líði sem olli því að erfitt, ef ekki ógerningur, var að ná skilmerkilegu yfirliti um reksturinn. Á árinu mun fara fram yfirgripsmikil fræðsla meðal stjórnenda um fjármál, notkun hjálpartækja og ábyrgð þeirra. Þess ber að geta að vaxandi skilningur virðist á því að fjármögnun spítalans sé nú að afar gamaldags hætti. Nýjungar í átt til DRG-kerfis eru í vinnslu og þarf að leggja kapp á að hefja notkun þess sem fyrst. Loks er ákveðið að leita eftir því að Ríkisendurskoðun leggi mat á hvernig til hefur tekist um sameiningu sjúkrahúsanna bæði út frá faglegu sjónarhorni og fjárhagslegu. Þó svo sameiningunni sé ekki að fullu lokið þá er tímabært að þetta verði gert.
Ágæta samstarfsfólk – umræðan um spítalann að undanförnu hefur verið óskemmtileg en óhjákvæmileg. Fjármál og rekstur eru fyrirferðarmikil en einnig hin mikla þjónusta sem hér er veitt, ekki síst þegar mikið liggur við. Ákvarðanir síðustu vikna um aðhald að rekstri með fækkun starfsfólks og minni tilkostnaði eru óhjákvæmilegar til þess að verða við kröfu stjórnvalda. Hitt er það, að mjög margir eru þeirrar skoðunar að á LSH sé unnið gott starf sem þurfi að standa vörð um. Ég á von á því að í haust og vetur fari mikið fyrir opinberri umfjöllun um spítalann og starf hans.
Bestu kveðjur
Magnús Pétursson, forstjóri
magnusp.landspitali.is