Anna Ólafía Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin deildarstjóri á göngudeild, dagdeild og bráðamóttöku barna á barnasviði Landspítala - háskólasjúkrahúss frá og með 1. október 2002. Ráðningin er á grundvelli umsóknar um stöðuna, umfjöllunar í stöðunefnd hjúkrunarráðs LSH, viðtals við sviðsstjóra hjúkrunar barnasviðs og hjúkrunarforstjóra LSH.
Anna Ólafía lauk B.S. prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1983 og M.S. prófi frá sama skóla vorið 2002. Meistararannsókn hennar var um fræðslu- og stuðningsmeðferð fyrir foreldra barna og unglinga með krabbamein. Anna Ólafía hóf störf á Barnaspítala Hringsins 1987, hún var deildarstjóri á barnaskurðdeildinni frá 1990-1998, þar til hún tók við starfi verkefnisstjóra notendaþáttar nýbyggingar barnaspítalans.