Áslaug Björg Viggósdóttir formaður Hringsins
Ávarp við afhendingu gjafar 19. september 2002
Ráðherrar, forráðamenn Landspítala - háskólasjúkrahúss, starfsfólk Barnaspítala Hringsins, samstarfskonur í Hringnum og aðrir góðir gestir!
Í dag er stór dagur hjá Hringskonum og okkur öllum sem hér erum stödd. Hringurinn hefur starfað óslitið í nær heila öld og oft fagnað sigrum, bæði stórum og smáum. En þær konur sem stofnuðu Barnaspítalasjóð Hringsins 14. júní 1942 áttu sjálfsagt ekki von á því að það tæki 60 ár að uppfylla drauminn um fullkominn og sérhannaðan spítala fyrir börn. Spítala sem búinn yrði bestu tækjum sem völ væri á hverju sinni, til lækningar og umönnunar sjúkra barna. Spítala , þar sem einnig væri fullkomin aðstaða fyrir hjúkrunarfólk og aðstandendur barna.
En nú stöndum við hér í glæsilegri byggingu þar sem heitið BARNASPÍTALI HRINGSINS er letrað gylltum stöfum við innganginn, til staðfestingar á því að draumurinn er að rætast.
Hringurinn hefur ekki byggt þennan spítala en Hringskonur hafa svo sannarlega haldið málinu vakandi við stjórnvöld. Ráðherrar og ríkisstjórnir koma og fara en Hringurinn er alltaf til staðar með sívakandi auga á þessu helsta hugðarefni sínu. Öll sú merka saga er rakin í bókinni Hringurinn í Reykjavík sem kemur út á vegum félagsins innan skamms.
Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka samstarfskonum mínum í Hringnum fyrir hvað þær hafa verið eljusamar, útsjónarsamar og fórnfúsar í störfum sínum fyrir félagið.
Alla jafna fer starf okkar ekki hátt, en almenningur á rétt á því að vita hvernig peninga til líknar- og mannúðarmála er aflað og hvernig þeim er varið. Við höfum gegnum árin fengið áheit og gjafir frá fjölmörgum velunnurum og notið margvíslegrar fyrirgreiðslu þeirra sem hafa viljað styðja Barnaspítala Hringsins.
Hringurinn hefur staðið fyrir eigin fjáröflun frá fyrstu tíð. Minningarkort félagsins hafa verið seld frá 1914, Auk þess stöndum við fyrir jóla- og kökubasar, sölu jólkorta, með Jólakaffi Hringsins og ekki má gleyma peningabaukunum okkar góðu. Það má því segja að mikil ábyrgð hvíli á Hringskonum. Ávaxta vel þá fjármuni sem þær hafa safnað og þeim treyst fyrir og þrýsta um leið á stjórnvöld að hér rísi sérhannaður barnaspítali
Barnaspítalasjóður Hringsins og félagið Hringurinn eru tvær algjörlega aðskildar einingar. Enginn er á launaskrá og hver króna sem safnast fer óskipt í Barnaspítalasjóð Hringsins , en Hringurinn kvenfélagið er rekið fyrir félagsgjöld Hringskvenna og fyrir kaffiveitingar á fundum.
Samkvæmt rammasamningi sem heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytið, Ríkisspítalar og Hringurinn gerðu með sér 26. maí 1994 samþykkti félagið að veita 100 milljóna króna styrk til byggingar nýs barnaspítala. Við höfum auðvitað ávaxtað þessa fjármuni vel og aukið við það, þannig að framlag Barnaspítalasjóðs Hringsins, sem afhent verður hér á eftir, nemur 150 milljónum króna.
Þetta er í annað sinn á þessu ári sem Barnaspítalasjóður Hringsins styrkir nýja barnaspítalann, því eins og kunnugt er afhentum við 50 milljónir króna í vor til minningar um aðalhvatamann og stofnanda Hringsins, frú Kristínu Vídalín Jacobson. Sú gjöf var ætluð til kaupa á rúmum og búnaði fyrir spítalann. Barnaspítalasjóður Hringsins hefur því lagt hinum nýja Barnaspítala Hringsins til 200 milljónir króna á þessu ári.
Það er von Hringsins að framlag félagsins nú í dag verði til þess að hægt verði að ljúka við allan spítalann og að allar deildir verði teknar í notkun á sama tíma.
Vonandi verða þessi framlög okkar einnig hvatning til almennings, félaga og fyrirtækja til þess að leggja þessu góða málefni áfram lið. Stuðningur almennings hefur gert Hringnum mögulegt að færa Barnaspítala Hringsins tæki og búnað sem spítalann hefur skort og það er von okkar að svo verði einnig í framtíðinni. Gjafir frá velunnurum eru sífelldur hvati til þess að leggja sig fram og við erum afskaplega þakklátar því góða fólki sem hefur lagt okkur lið.
Okkur Hringskonum finnst vel við hæfi að fyrrverandi formaður félagsins, frú Elísabet Hermannsdóttir afhendi gjöfina frá okkur hér í dag. Hún var formaður félagsins 1991 – 1999, var fulltrúi okkar við undirritun rammsamningsins 1994 og þegar fyrsta skóflustungan var tekið árið 1998. Það er okkur mikið gleðiefni að hún skuli fá tækifæri til þess að reka smiðshöggið á það verkefni sem hófst í formennskutíð hennar.
"Til barna á Íslandi" er yfirskriftin á gjafabréfi sem Elísabet mun afhenda hér á eftir. Börnin – þríburarnir sem taka við því fyrir hönd barna á Íslandi heita Sara, Guðjón og Sif. Þeim lá mikið á að komast í heiminn árið 1989 og fæddust mikið fyrir tímann. Þau dvöldu því hér á Barnaspítalanum fyrstu vikur ævi sinnar og nutu umönnunar hins frábæra starfsfólks Barnaspítala Hringsins sem hvarvetna er lofað fyrir hlýlegt og notalegt viðmót og einstaka fagmennsku.
Barnaspítali Hringsins hefur oft verið í húsnæðishraki en hann hefur aldrei verið munaðarlaus. Hringskonur munu áfram gegna sínu móðurhlutverki og vaka yfir því að nýja barnið vaxi og dafni. Fyrir hönd Hringskvenna óska ég Barnaspítalanum og starfsfólki hans gæfu og blessunar um ókomna tíð.