Nýr útvefur Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur verið opnaður á Netinu. Formleg opnun var í dag í lok fundar framkvæmdastjórnar LSH með fulltrúum nokkurra samtaka sjúklinga. Fundurinn var liður í röð kynningarfunda af því tagi sem framkvæmdastjórn hefur staðið fyrir að undanförnu með ýmsum hópum í samfélaginu. Fríða Bragadóttir frá Samtökum sykursjúkra ýtti á takka og opnaði vefinn.
Til að fara á útvefinn er smellt á "Útvefur" sem er á bláu línunni neðst á skjánum.
Segja má að útvefurinn sé beint framhald af heimavefnum sem var opnaður í desember 2001. Sá vefur hefur verið í stöðugri þróun og uppbyggingu. Notkun hefur um leið aukist mjög mikið. Nú er svo komið að heimavefurinn er orðinn ómissandi tæki í daglegu starfi fjölda fólks og helsta leið í upplýsingaöflun og upplýsingamiðlun innan sjúkrahússins. Á annað þúsund starfsmenn sjúkrahússins sækja upplýsingar á heimavefinn á hverjum degi.
Útvefurinn kemur nú upp að hlið heimavefsins og opnar leiðir fyrir almenning að nálgast hafsjó upplýsinga um Landspítala - háskólasjúkrahús á auðveldan hátt. Því fer fjarri að nýi vefurinn fæðist fullskapaður, enda er honum ekki ætlað það. Hér er miklu frekar verið að kynna til sögunnar tæki sem gefur ótakmarkaða möguleika á að vaxa og dafna, á þann hátt sem best hentar notendum, þ.e. fólkinu í landinu. Þetta er ekki aðeins vefur um líðandi stund, heldur öflugt gagnsafn um starfsemi LSH þar sem geymdar verða upplýsingar á þann hátt að auðvelt verði að sækja þær þegar á þarf að halda. Segja má að upplýsingavefur LSH sé móðurskip margra vefja, sumir eru nú þegar að miklu leyti skapaðir, aðrir í smíðum og enn aðrir teljast vera á umræðustigi eða að komast þangað.
Heimavef og útvef svipar mjög hvorum til annars í útliti, skipulagi og efnistökum. Eðli málsins samkvæmt er útvefurinn miðaður við þarfir almennings en heimavefurinn aðeins sýnilegur starfsmönnum á spítalanetinu. Á útvefnum er stærstur hluti þess sem er á heimavefnum, flest annað en það sem fjallar um úrlausnarefni í störfum fólks á LSH frá degi til dags, svo og fræðslumál og félagsstarf.
Á forsíðu útvefsins eru flýtileiðir að því sem búast má við að almenningur leiti að og er skipulagið við það miðað að sem einfaldast verði að finna efnið. Þar er auki er hægt að leita á veftré eða með mjög öflugri leitarvél sem er á upplýsingavef LSH. Vakin er athygli á mikilvægu starfi stuðningsfélaga sjúkrahússins og bent á leiðir til að sýna starfseminni stuðning með gjöfum og styrkjum. Undir liðnum "Sjúkrahúsið - A til Ö" hafa verið teknar saman margskonar upplýsingar um starfið og þjónustu sjúkrahússins, gagnlegar jafnt sjúklingum, aðstandendum og gestum. Þar er líka dagbók þar sem verða skráðir ýmsir viðburðir í starfsemi LSH sem ástæða er til að vekja athygli almennings og fjölmiðla á. Fréttir eru mikilvægur hluti upplýsingavefs LSH, þær nýjustu eru á forsíðu en eldri fréttir í fréttasafni. Á vegum Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur verið gefið út fjölbreytt fræðsluefni um sjúkdóma og forvarnir. Margt af því er hægt að skoða á útvefnum.
Hnapparnir vinstra megin á forsíðunni vísa til meginskiptingar efnis á upplýsingavef LSH. Um efnið má taka sem dæmi "Upplýsingar". Þegar smellt er á þann hnapp opnast síða þar sem teknar hafa verið saman margvíslegar upplýsingar um starf og rekstur á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Það sem heitir "Á sjúkrahúsinu" ætti að gagnast vel sjúklingum, aðstandendum og gestum. Svæðið sem ætlað er fjölmiðlum ætti á sama hátt að auðvelda fjölmiðlafólki að finna upplýsingar sem það þarf á að halda í fréttaflutningi af starfsemi háskólasjúkrahússins. Öllum sem þurfa að tala eða skrifa um Landspítala - háskólasjúkrahús ætti að nýtast vel vefsíðan "Orðað og ritað". Þar er svarað algengum spurningum um hvernig á að orða eða rita ýmislegt sem tengist sjúkrahúsinu. Þetta efni er unnið í samvinnu við Íslenska málstöð.
Þótt nýr útvefur sé opnaður núna hefur ekki verið lokið við að flytja allt efni af gamla vefnum yfir á þann nýja. Fyrst um sinn verður því hægt að opna gamla vefinn með því að fara í hraðvalið og velja "Gamli vefurinn".
Upplýsingavefur LSH er hannaður af hugbúnaðarfyrirtækinu Hugviti, Gagnasmiðju Landspítala - háskólasjúkrahúss og upplýsingafulltrúa LSH, sem jafnframt hefur yfirumsjón með vefnum.