Lagerstaða í Blóðbankanum er aftur góð. Þökk sé öllu því ágæta fólki sem hlýddi neyðarkalli og gaf blóð, jafnvel eftir útkall um nótt. Metaðsókn var í Blóðbankanum dagana eftir að fjölmiðlar brugðust vel við og vöktu athygli á blóðskortinum. Yfir 750 manns komu í Blóðbankann frá mánudegi til föstudags og 100 í blóðsöfnunarbílinn. Vikulega leggja að jafnaði um 350 manns leið sín í Blóðbankann til að gefa blóð.
En þótt vel hafi tekist til vekur Blóðbankinn athygli á mikilli og stöðugri þörf á blóði. Það er afar mikilvægt að tryggja að til séu nauðsynlegar varabirgðir blóðs hér á landi. Blóðbankastarfsfólkið sendir kveðjur sínar, þakkar fyrir góð viðbrögð og væntir þess að sem allra flestir líti inn núna fyrir jólin og gefi blóð.