Öldrunarlækningadeild B-4 (bráðadeild) í Fossvogi hefur verið lokað fyrir innlögnum um stundarsakir vegna sýkinga meðal sjúklinga og starfsmanna af völdum Calici (Norwalk-líkrar) veiru. Fyrstu tilfellanna varð vart í síðustu viku, fyrst meðal sjúklinga og síðan meðal starfsfólks. Alls hafa nú 16 sjúklingar (af 25) og 18-20 starfsmenn (af uþb. 40) veikst. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að smitið berist til annarra deilda sjúkrahússins. Allur óþarfa umgangur um deildina verður óheimill á meðan faraldurinn er að ganga yfir og aðgangur heimsóknargesta takmarkaður. Starfsfólk deildar B-4 má ekki sinna sjúklingum á öðrum deildum. Allir sem inn á deildina fara verða að hlíta smitgátarreglum. Faraldurinn er nú þegar í rénum en ekki verður unnt að aflétta ofangreindum varúðarráðstöfunum fyrr en allir á deildinni hafa verið einkennalausir í 3 sólarhringa. Vakni grunur um sýkingar af völdum Calici (Norwalk-líkrar) veiru á öðrum deildum skal þegar gera sýkingavarnadeild LSH viðvart.
Innlagnir stöðvaðar tímabundið á B-4
Innlagnir hafa verið stöðvaðar tímabundið á öldrunarlækningadeild B-4 í Fossvogi vegna sýkinga af völdum Calici veiru.