Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur í samráði við Landspítala - háskólasjúkrahús (LSH) ákveðið að breyta rekstrarformi sjúkrahúsapóteksins. Þetta hefur í för með sér að sá hluti rekstrarins sem telst til samkeppnisrekstrar verður skilinn frá öðrum rekstri. Þessi hluti rekstrarins verður áfram rekinn sem hlutafélag, eða hann boðinn út. Að öðru leyti verður sjúkrahúsapótekið rekið sem hluti af almennri starfssemi sjúkrahússins og nú sem hefðbundið sjúkrahúsapótek.
Til þess að vinna að umræddri breytingu hefur stjórn Sjúkrahúsapóteksins ehf. og LSH ákveðið að skipa tímabundna starfsnefnd. Viðfangsefni hennar er að gera tillögur um alla þætti framangreindra breytinga á rekstrarformi. Stefnt skal að því að ný skipan hafi tekið við að fullu fyrir 1. júní 2003. Nefndina skipa Valgerður Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Sjúkrahúsapóteksins ehf., Niels Chr. Nielsen, aðstoðarmaður framkvæmdastjóra lækninga LSH, Sigurður B. Þorsteinsson, læknir og yfirmaður deildar lyfjamála á LSH, Þuríður Erla Sigurgeirsdóttir, lyfjafræðingur, Oddur Gunnarsson lögfræðingur á skrifstofu starfsmannamála LSH, og Guðmundur I. Bergþórsson, sviðsstjóri LSH.
Verkefni nefndarinnar er m.a. að
- undirbúa nauðsynlegar aðgerðir vegna breytinga á hlutafélaginu
- gera tillögu um hvaða hluta núverandi rekstrar megi færa í hendur einkaaðila og hvernig það skuli best gert
- gera tillögu um hvernig skipa skuli lyfjamálum í starfsemi LSH með hliðsjón af núverandi skipun þeirra mála og
- meta þau önnur atriði í lyfjameðferð spítalans sem nefndin telur ráðlegt að endurskoða í tengslum við yfirfærslu á starfsemi hlutafélagsins.
Nefndinni er gert að leggja fyrir yfirlit um þau verkefni sem vinna þarf og undirbúa uppsagnir og endurráðningu starfsfólks. Framvinda málsins verði reglulega kynnt forstjóra LSH, stjórn Sjúkrahúsapóteksins ehf. og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Fyrir lok mars n.k. liggi fyrir tillögur um stjórnskipulag lyfjamála LSH, mannaráðningar og breytingar á lyfjamálum spítalans.