Lokaáfangi flutninga í Barnaspítala Hringsins stendur yfir en eftir honum hefur verið beðið lengi. Sunnudaginn 23. mars hófust flutningar á skrifstofuhæðina á 21D og 21E og eru flestir starfsmenn komnir til starfa á þeirri hæð. Vikuna á eftir einkenndist starfið á barnasviðinu af undirbúningi að flutningi deilda. Fyrstu sjúklingar á dagdeild koma að morgni 1. apríl. Allar legudeildir, bráðamóttaka og göngudeild munu síðan hefja starfsemi sína á nýjum stað fimmtudaginn 3. apríl. Mikil eftirvænting ríkir og sterk samstaða hefur verið, að mati sviðsstjóranna, meðal starfsmanna á barnasviðinu í öllum þessum undirbúningi, þannig að allt virðist ætla að ganga vel upp. Aðrir starfsmenn LSH sem hafa komið að þessum undirbúningi hafi líka reynst einstakir í öllu sínu starfi og verið boðnir og búnir að veita alla aðstoð. Gera má ráð fyrir því að á fyrstu dögunum komi upp ýmis mál sem þurfa skjótra lausna en lögð verður sérstök áhersla á það að tryggja allt öryggi í þjónustu. Nýir tímar eru framundan í þjónustu við börn og aðstandendur sem þurfa að leita til LSH. Það er von allra sem að þessum málum starfa að gæfa og gengi muni fylgja öllu starfi á Barnaspítala Hringsins um ókomna tíð.
Starfsemi að hefjast
Nú hillir undir að starfsemi í nýjum barnaspítala hefjist af fullum krafti. Starfsmennirnir hafa verið að flytja og fyrstu sjúklingarnir verða fluttir þangað í vikunni.