Ungur karlmaður sem hefur verið í endurhæfingu fyrir krabbameinssjúka á göngudeild í Kópavogi heldur málverkasýningu í K- byggingu við Hringbraut 10. og 11. apríl 2003.
Jónas Ingólfur sem er tvítugur að aldri greindist með eitlakrabbamein í maí 2002. Hann byrjaði í endurhæfingu á göngudeildinni í Kópavogi í nóvember sama ár. Þar hefur hann unnið að því að byggja sig upp líkamlega og andlega. Eitt af áhugamálum hans til margra ára er að mála myndir. Vegna veikinda hafði hann misst áhuga og orku til að stunda þessa tómstundaiðju. Í endurhæfingunni vaknaði áhuginn aftur. Jónas Ingólfur hefur varið miklum tíma í Listasmiðju iðjuþjálfunar við að mála myndir.
Hann er einnig farinn að stunda þess iðju heimavið og má sjá afraksturinn eftir tímabilið á þessari fallegu sýningu.
Jónas Ingólfur er nú útskrifaður úr endurhæfingu, farinn að vinna hálfan daginn og horfir björtum augum á framtíðina.
Starfsfólk göngudeildarinnar í Kópavogi óskar Jónasi Ingólfi innilega til hamingju með sýninguna, um leið og það hvetjur alla sem tök hafa að sjá hana.