Greinargerð Runólfs Pálssonar læknis,
nýrnadeild LSH, lyflækningasviði I
4. maí 2003
Líffæraígræðslur í íslenska sjúklinga hafa verið gerðar á erlendum sjúkrahúsum fram til þessa. Meginástæða þess að þær hafa ekki verið framkvæmdar hér á landi er sú að tilfellin hafa verið talin of fá til að viðhalda fullnægjandi þjálfun skurðlækna sem þær annast. Undanfarin ár hafa líffæraígræðslur verið framkvæmdar á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn og hafa ígræðslur nýrna frá lifandi gjöfum verið 3-5 á ári. Nýraþegarnir hafa yfirleitt dvalið ytra í 3-4 vikur að lokinni aðgerð. Undirbúningur og langtímameðferð hefur alfarið farið fram hérlendis.
Lengi hefur verið rætt um að hefja ígræðslur á nýrum frá lifandi gjöfum hér á landi. Frá árinu 1996 hafa tveir starfshópar komist að þeirri niðurstöðu að fullnægjandi þekking og aðstaða sé fyrir hendi til að unnt sé að framkvæma þessar ígræðslur á Íslandi. Sú forsenda hefur verið lögð til grundvallar að þjálfaður ígræðsluskurðlæknir kæmi hingað til að framkvæma aðgerðirnar. Í því sambandi hefur verið horft til Jóhanns Jónssonar, ígræðsluskurðlæknis á Fairfax sjúkrahúsinu í Virginíu í Bandaríkjunum, en hann hefur lengi sýnt þessu máli áhuga.
Kostir við að framkvæma ígræðslur nýrna frá lifandi gjöfum hér á landi snúa einkum að sjúklingunum sem í hlut eiga og aðstandendum þeirra. Frá fjárhagslegu og félagslegu sjónarmiði er án efa mun betra fyrir sjúklinga að þessar aðgerðir fari fram hér fremur en í fjarlægu landi þar sem þeir þurfa að dvelja ásamt ættingjum í 3-4 vikur eða lengur ef vandamál koma upp. Þá er líklegt að hagkvæmara sé fyrir samfélagið að aðgerðirnar fari fram hérlendis en það eru þó ekki meginrökin í þessu máli. Loks má nefna að framkvæmd líffæraflutninga gæti orðið lyftistöng fyrir þróun læknisfræði á Íslandi og mun að líkindum styrkja faglega þekkingu og reynslu á mörgum sviðum.
Tekin hefur verið ákvörðun um að ráðast í framkvæmd ígræðslna á nýrum frá lifandi gjöfum á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH). Jóhann Jónsson ígræðsluskurðlæknir mun koma hingað tvisvar á ári til að framkvæma þessar aðgerðir í samvinnu við skurðlækna hér, 2-3 aðgerðir í senn. Auk framlags Jóhanns byggir þetta verkefni á samstarfi nýrnadeildar og skurðlækningasviðs LSH en innan þeirra vébanda eru læknar sem búa yfir reynslu af nýrnaígræðslum. Fjölmargir læknar og aðrir fagaðilar munu koma að þessu verkefni.
Á undanförnum áratugum hefur orðið mikil framþróun á sviði nýrnaígræðslna sem eru nú daglegur viðburður á mörgum sjúkrahúsum á Vesturlöndum. Gera verður þá kröfu að árangur af þessum aðgerðum hér verði sambærilegur við það sem gerist á erlendum sjúkrahúsum. Því er mikilvægt að hlúa vel að þessari starfsemi og skapa henni öfluga umgjörð.