Landspítali - háskólasjúkrahús stóð fyrir málþingi um sjúkrahús í breytilegu umhverfi 14. ágúst 2003 sem tókst ákaflega vel. Málþingið sem haldið var í Hringsal hófst með ávarpi Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og ávarpi Magnúsar Péturssonar, forstjóra.
Að ávörpum loknum tóku við fyrirlestrar erlendu gestanna og var fyrst á dagskrá prófessor Martin McKee frá London School of Hygiene & Tropical Medicine og European Observatory on Health Care Systems. McKee lagði áherslu á síbreytilegt umhverfi sjúkrahúsa með tilliti til annarra þátta heilbrigðisþjónustunnar, þarfa skjólstæðinganna og framfara í tækni. Sjá fyrirlestur McKee. Næst tók til máls Andrew Woodhead forstjóri Royal National Orthopaedic Hospital í London sem jafnframt starfar með McKee við European Observatory on Health Care Systems. Woodhead sagði frá breytingum á rekstri og endurskipulagi þriggja sjúkrahúsa í London sem hann hefur tekið þátt í undanfarin ár. Woodhead fjallaði m.a. um spurninguna hvort stórar einingar í sjúkrahússrekstri væru árangursríkar. Sjá fyrirlestur Woodhead.
Eftir hlé tóku við fyrirlestrar um vinnuumhverfi á sjúkrahúsum. Dr. Anne Marie Rafferty frá London School of Hygiene & Tropical Medicine og stjórnandi Centre for Policy in Nursing Research fjallaði um teymisvinnu og sjálfræði hjúkrunarfræðinga og svaraði spurningunni um hvort slíkt skilaði betri þjónustu til sjúklinganna. Rafferty fjallaði um rannsóknir sínar sem sýna tengsl teymisvinnu og gæða þjónustunnar. Nýleg rannsókn hennar hefur sýnt fram á samband mönnunar á sjúkrahúsum og dánartíðni sjúklinga. Að loknu erindi Rafferty fjallaði Christine Mueller frá ANCC um Magnet viðurkenningar. Mueller sagði stuttlega frá sögu þessara viðurkenninga frá árinu 1983 og greindi frá því að um er að ræða hlutlaust mat þar sem miðað er við ákveðna staðla sem ná til þjónustu við sjúklinga, starfsmannamála og stjórnunar. Magnet viðurkenningar ná til sjúkrahúsa í 25 fylkjum Bandaríkjanna og eitt sjúkrahús á Bretlandi hefur hlotið viðurkenningu.
Eftir hádegið tóku svo við fyrirlestrar frá LSH þar sem Sigurður Ólafsson og Lilja Stefánsdóttir fjölluðu um framtíðarsýn LSH og þar á eftir fjallaði Ari Edwald frá Samtökum atvinnulífsins um mikilvægi skilvirkni heilbrigðisþjónustunnar einkum í fjárhagslegu tilliti. Í kjölfar þessa voru kynntar niðurstöður þriggja kannana á líðan starfsmanna á LSH. Sigrún Gunnarsdóttir fjallaði um hjúkrunarfræðinga og ljósmæður, Kristinn Tómasson um lækna og síðan gerði Sigurður Guðmundsson, landlæknir grein fyrir könnun embættisins á starfsumhverfi á LSH. Að lokum kynnti Ragnheiður Haraldsdóttir skrifstofustjóri hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu störf nefndar um framtíðaruppbyggingu LSH.
Líflegar umræður voru í panel fyrir og eftir hádegið í umsjón fundarstjóranna Önnu Lilju Gunnarsdóttur og Friðbjörns Sigurðssonar.
Undirbúningsnefnd málþingsins skipuðu Hrafn Óli Sigurðsson og Sigrún Gunnarsdóttir.
Efri röð: Sigurður Guðmundsson, Sigrún Gunnarsdóttir, Anna Lilja Gunnarsdóttir, Sigurður Ólafsson, Martin McKee, Jóhannes Gunnarssson, Friðbjörn Sigurðsson, Kristinn Tómasson, Hrafn Óli Sigurðsson Neðri röð: Andrew Woodhead, Anne Marie Rafferty, Ragnheiður Haraldsdóttir, Lilja Stefánsdóttir, Christine Mueller, Anna Stefánsdóttir |
Andrew Woodhead, Martin McKee, Anne Marie Rafferty, Christine Mueller |