Stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) fagnar þeim viðbrögðum stjórnvalda að skipa nefndir til að fjalla um málefni stofnunarinnar og að tryggja rekstur hennar með auknum fjárveitingum.
Á fundi stjórnarnefndar í dag, miðvikudag 10. september 2003, kom fram að fjármálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hyggjast leggja til við Alþingi að í haust verði veittar 930 milljónir króna á fjáraukalögum til að styrkja rekstur spítalans á þessu ári. Spár höfðu bent til þess að halli ársins gæti orðið um 1500 milljónir króna. Með ákvörðun ráðherranna tekst að komast hjá stórfelldum samdráttaraðgerðum í starfsemi LSH núna sem annars hefðu verið óhjákvæmilegar. Að áliti stjórnenda spítalans verður ekki gengið lengra í lækkun útgjalda án þess að það komi niður á núverandi þjónustu LSH.
Stjórnarnefnd telur að fjárframlög til spítalans að undanförnu hafi ekki fylgt auknum og þyngri verkefnum. Raunútgjöld spítalans hafi því sem næst staðið í stað síðastliðin ár og það hljóti að teljast góður árangur í rekstri.
Það er fagnaðarefni að ráðherrar fjármála- og heilbrigðismála ætla að setja á fót tvær starfsnefndir um málefni spítalans. Heilbrigðisráðherra skipar starfsnefnd sem á að móta hlutverk háskólasjúkrahússins til framtíðar. Fulltrúar spítalans eiga aðild að honum. Hin starfsnefndin á að fara yfir fjárhagsstöðu spítalans og meta hvort og þá til hvaða aðgerða þurfi að grípa vegna hennar. Í þeim hópi verða formaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, ásamt fulltrúum fjármálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.
Stjórnarnefnd væntir mikils af verkum starfsnefndanna beggja í þágu þess mikilvæga starfs sem unnið er á Landspítala - háskólasjúkrahúsi og treystir því jafnframt að styrkum fjárhagsstoðum verði rennt undir starfsemi spítalans til framtíðar, um leið og hlutverk hans í heilbrigðisþjónustu landsmanna verður vel skilgreint.