Það voru afkomendur Úlfars Þórðarsonar sem afhentu myndina, 17. september s.l. og verður hún framvegis staðsett
í Blásölum á 7. hæð í E álmu, Fossvogi. Myndina málaði Ragnar Páll Einarsson.
Úlfar Þórðarson var landskunnur maður. Hann fæddist á Landspítala, Kleppi þ. 2. ágúst 1911 og lést þ. 28. feb. 2002.
Hann fæddist á spítala og helgaði heilbrigðisþjónustunni allt sitt líf.
Á uppvaxtarárum sínum kynnist hann heilbrigðismálum afar vel, en eins og allir vita var faðir hans Þórður Sveinsson,
forstöðumaður og yfirlæknir á Kleppi um árabil.
Úlfar stundaði nám í læknisfræði og lauk námi 1936. Sérfræðingsleyfi í augnlækningum fékk hann 1940.
Á námsárum sínum starfaði hann m.a. á Landspítalanum við Hringbraut. Hann opnaði eigin lækningastofu
1940 og starfaði jafnframt sem sérfræðingur á Landakotsspítala á árunum 1942 – 1981 eða í tæp 40 ár. Þá starfaði
hann sem trúnaðarlæknir flugmálastjórnar um áratugaskeið.
Úlfar var virkur í stjórnmálum og íþróttahreyfingunni og var m.a. formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur um 15 ára skeið.
Hann var áhrifamaður í heilbrigðismálum í Reykjavík. Hann sat í Sjúkrahúsnefnd Reykjavíkur 1960 – 1970 og síðar sem
formaður heilbrigðismálaráðs frá 1970 – 1978. Hann var fyrsti formaður stjórnar Borgarspítalans 1975 og jafnframt
formaður bygginganefndar Borgarspítalans 1973-1978.
Þannig tók Úlfar virkan þátt í uppbyggingu og þróun Borgarspítalans um langt skeið og var mikill áhugamaður um vöxt og
viðgang spítalans. Tók hann t.d. fyrstu skóflustunguna að B-álmu Borgarspítala 1978 og beitti sér mjög fyrir byggingu hennar.
Hann vildi ekki aðeins bæta það sem var innan dyra. Hann beitti sér fyrir einnig fyrir fegrun umhverfisins og var
hvatamaður að þeirri trjárækt sem er á lóð Borgarspítala suðvestan spítalans. Hann hreif með sér samstarfsfólk og
mætti sjálfur á staðinn til að gróðursetja trén, sem fyrir löngu eru orðin hávaxin og standa sem skemmtilegur minnisvarði
um dugnað og drifkraft Úlfars.
Ekki má gleyma aðkomu Úlfars og fjölskyldu hans að vísindarannsóknum.
Þegar á árinu 1964 eða 4 árum áður en Borgarspítalinn tók til starfa stofnuðu Úlfar og fjölskylda hans vísindasjóð
Borgarsjúkrahúss Reykjavíkur. Var hann stofnaður til minningar um son þeirra hjóna, Þórð sem lést 1963 og föður
Úlfars, Þórð á Kleppi. Stofnfé sjóðsins var á því ári (1964) 150 þús. kr. Jafnframt tryggði borgarsjóður, fyrir atbeina Úlfars,
árlegt framlag til sjóðsins auk annarra tekna. Þessarar sjóðsstofnunar nýtur LSH enn í dag, en þegar núverandi
vísindasjóður LSH varð til 1. janúar 2001 var aðalframlag í þann sjóð 33.7 m.kr. frá gamla sjóðnum. Þeirra nafna,
Þórðar Sveinssonar og Þórðar Úlfarssonar, er minnst í stofnskrá hins nýja sjóðs.
Á þeim árum sem liðin eru frá stofnun sjóðsins hefur hann veitt miklu fé til fjölmargra rannsókna á Borgarspítala
og verið mikil lyftistöng fyrir vísindavinnu á Borgarspítala og nú á LSH. Fyrir þennan þátt ber að þakka Úlfari og
fjölskyldu hans sérstaklega.
Þar er því með mikilli ánægju og virðingu við minningu frumkvöðuls, sem LSH veitir viðtöku málverki af Úlfari
Þórðarsyni sem ákveðið hefur verið að prýða muni Blásali, á 7. hæð í E-álmu, Fossvogi