Úr frétt Morgunblaðsins 17. september 2003
DR. HELGA Hannesdóttir, barna- og unglingageðlæknir, hefur verið sæmd heiðursdoktorsnafnbót við læknadeild Turku-háskóla í Finnlandi. Doktorsritgerð Helgu ber heitið, Studies on child and adolescent mental health in Iceland, en hún var varin 22. febrúar 2002 við Turku-háskóla. Ritgerðin var valin besta doktorsritgerð ársins 2002 við læknadeild háskólans í Turku.
Sérstök nefnd finnskra alþingismanna og deildarráðs læknadeildar Turku-háskóla stendur árlega að útnefningunni en athöfnin fór fram í fyrradag. Heiðraðir eru þeir sem hafa skrifað bestu doktorsritgerðirnar á hverju ári og efnir háskólinn af þessu tilefni til sérstakrar athafnar og er blaðamönnum hvaðanæva frá Finnlandi boðið að vera viðstaddir.
Helga segir nafnbótina mikla viðurkenningu á rannsóknarstarfi sínu en vinnan við ritgerðina tók tíu ár. Fól hún í sér rannsókn á 4.000 íslenskum börnum á aldrinum 4-18 ára. "Það hefur vakið athygli að ritgerð um geðlækningar skuli hafa verið valin besta ritgerðin en síðustu ár hafa þær yfirleitt komið úr greinum eins og erfða- og sameindalæknisfræði."
Helga kveðst vona að nafnbót háskólans í Turku auki skilning hér á landi á því að barna- og unglingageðlækningar séu viðurkennd vísindagrein um allan heim en Ísland sé eina landið í Evrópu sem hafi ekki viðurkennt hana sem sérgrein innan læknisfræði.Við læknadeild Turku-háskóla voru varðar 97 doktorsritgerðir á árunum 2001-2002 og af þeim voru valdar til heiðursdoktors-útnefningar 7 ritgerðir. Ritgerð Helgu var sú eina sem var valin á sviði geðlækninga.