Opnuð hefur verið á Barnaspítala Hringsins sýning á myndum sem gerðar hafa verið í listasmiðjunni Gagn og gaman í Gerðubergi í Reykjavík. Elísabet Þórisdóttir forstöðumaður menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergi opnaði sýninguna formlega í hófi á barnaspítalanum í hádeginu miðvikudaginn 22. október 2003. Þetta er fyrsta sýningin samkvæmt samningi milli Barnaspítala Hringsins og Gerðubergs um stöðugt sýningarhald næstu árin.
Við sama tækifæri var opnað menningarhorn í anddyri barnaspítalans og greint frá samstarfi við tónlistarskólana á höfuðborgarsvæðinu um að nemendur komi og flytji tónlist þar í hádeginu á miðvikudögum.
Myndlist
Samkvæmt samkomulagi sem sviðsstjórar barnasviðs gerðu við Gerðuberg verður hver sýning í 6 mánuði og ákveðið þema á hverri þeirra. Skipt verður um myndir í apríl og október ár hvert. Myndirnir eru á 2. og 3. hæð á veggjarými sem er vinstra megin þegar staðið er andspænis lyftum. Samningurinn gildir til 31. október 2006.
Listmiðjan Gagn og gaman hefur verið starfrækt í 15 ár í Gerðubergi og þar hafa börn á aldrinum 6-13 ára unnið undir leiðsögn starfandi listamanna að skapandi verkefnum. Aðalmarkmið námskeiðanna er að örva sköpunarhæfni barna og hvetja þau til tjáningar. Þau fá tækifæri til að upplifa sameiginlega reynslu og hvatningu til að tjá það sem þau upplifa í ýmsum tjáningarformum. Fagurfræði barnsins ræður ríkjum í smiðjunni, hugmyndaheimur þeirra og bakgrunnur. Hlutverk leiðbeinendanna er að styrkja barnið í trú á sjálft sig og í að spegla sig í listinni.
Afraksturinn úr þessum smiðjum er einstakt safn af myndverkum eftir börn. Tvær sýningar úr safni þessu eru nú þegar í húsakynnum Umboðsmanns barna, Laugavegi 13 og í Ungbarnaeftirlitinu í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg.
Hafið og umhverfi þess er þema fyrstu sýningarinnar á Barnaspítala Hringsins. Í tilefni af opnunni koma einnig út fjögur póstkort með myndverkum úr safninu. Kortin liggja frammi á leikstofu barnaspítalans þar sem börn geta fengið þau endurgjaldslaust. Kortin verða einnig til sölu í móttökumiðstöð í anddyri barnaspítalans.
Tónlist
Rúnar Þórisson gítarkennari frá tónlistarskólanum Do Re Mí lék einleik á gítar við upphaf formlegrar opnunar myndlistarsýningarinnar í barnaspítalanum 22. október. "Menningarhorn Barnaspítala Hringsins" var þar með einnig formlega opnað.
Þann 21. október 2003 heimsóttu Barnaspítala Hringsins 12 skólastjórar eða fulltrúar þeirra frá hinum ýmsu tónlistarskólum á höfuðborgarsvæðinu. Eftir skoðunaðarferð um barnaspítalann var ákveðið að tónlistarskólarnir fylltu menningarhornið af tónlist í hádeginu á miðvikudögum með því að þangað kæmu nemendur og flyttu tónlist. Í vetur er því þess að vænta að nemendur í söng og hljóðfæraleik eða kórar komi á Barnaspítala Hringsins og fylli hann af tónum. Tónleikar þessir verða undir yfirskriftinni "Menningarhorn á miðvikudegi".