Fréttatilkynning 4. desember 2003
Fyrsta nýrnaígræðsla hér á landi var á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH) þriðjudaginn 2. desember 2003. Um var að ræða ígræðslu á nýra frá lifandi gjafa í þega með langvinna nýrnabilun. Þeginn, sem er kona á fimmtugsaldri, fékk nýrað frá nánum ættingja. Aðgerðin gekk að óskum og bæði þega og gjafa heilsast eftir atvikum vel. Að jafnaði fylgir aðgerð af þessu tagi tæplega einnar viku lega á sjúkrahúsi.
Þessi aðgerð er gerð í kjölfar samnings Tryggingastofnunar ríkisins og Landspítala - háskólasjúkrahúss fyrr á árinu þar sem ákveðið var að ígræðslur nýrna frá lifandi gjöfum yrðu hér eftir á LSH. Tryggingastofnun ríkisins hefur árlega greitt fyrir þrjá til fimm einstaklinga sem hafa fengið nýru úr lifandi gjöfum og hefur verið í gildi samningur við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn um aðgerðirnar. Nýrnaþegarnir hafa yfirleitt dvalið ytra í 3-4 vikur að lokinni aðgerð en undirbúningur og langtímameðferð alfarið verið hérlendis. Settur var á fót hópur á spítalanum til að stjórna undirbúningi málsins, skipaður Eiríki Jónssyni yfirlækni þvagfæraskurðlækningadeildar, Runólfi Pálssyni nýrnalækni og Stefáni E. Matthíassyni yfirlækni æðaskurðlækningadeildar.
Fyrsta aðgerðin var undir stjórn Jóhanns Jónssonar læknis sem starfar á Fairfax Hospital í Virginia í Bandaríkjunum og hefur langa reynslu af líffæraflutningum. Ásamt honum gerðu aðgerðina læknar spítalans, þeir Eiríkur Jónsson yfirlæknir þvagfæraskurðlækningadeildar og Stefán E. Matthíasson yfirlæknir æðaskurðlækningadeildar. Samkvæmt samningnum um nýrnaflutningana kemur Jóhann Jónsson hingað til lands þrisvar á ári til að gera þessar aðgerðir í samvinnu við skurðlækna á LSH, 1-2 aðgerðir í senn.
Ígræðsla nýrna felur í sér flókið ferli með aðkomu starfsmanna LSH í mörgum starfsgreinum, svo sem lækna, hjúkrunarfræðinga, lyfjafræðinga, meinatækna, félagsráðgjafa og fleiri. Undirbúningur hefur gengið að óskum og samvinna allra aðila málsins verið eins og best verður á kosið.