Ólafur Skúlason biskup vígði altari og altarisbúnað við hátíðarguðsþjónustu á Landspítala Hringbraut sunnudaginn 30. nóvember 2003.
Fyrir u.þ.b. 3 árum kom upp umræða meðal félaga í Lionsklúbbnum Baldri í Reykjavík, sem notið höfðu þjónustu presta og djákna sjúkrahússins vegna veikinda og missis ástvina, að þakka þessa þjónustu með einhverjum hætti. Því var komið á framfæri og í framhaldinu ræddu sjúkrahúsprestar og djákni um þörf fyrir betri umgjörð um helgihaldið á þriðju hæð á Landspítala Hringbraut. Þar er guðsþjónusta hvern sunnudag. Þeim kom saman um að óska eftir altari og altarisbúnaði sem yrði á þriðju hæðinni. Sótt var teikning Ingimars Gunnarssonar arkitekts á LSH af búnaði sem er á Landakoti. Hana fengu Lionsmenn og sáu um, í samvinnu við prestana og djákna, að hrynda þessu í framkvæmd.
Lionsklúbburinn Baldur fagnar 50 ára afmæli á þessu ári og var ákeðið að stefna að því að færa sjúkrahúsinu gjöfina við þau tímamót. Það þótti við hæfi að vígslan færi fram á fyrsta sunnudegi í aðventu, við upphaf nýs kirkjuárs. Ólafur Skúlason biskup, sem hefur verið "Baldursfélagi" til margra ára, sá um vígsluna og prédikaði, sr. Jón Dalbú Hróbjartsson prófastur, sjúkrahúsprestar og djákni tóku þátt í athöfninni. Formaður Lionsklúbbsins Baldurs, Ásgeir Eiríksson, flutti stutt ávarp og afhenti gjöfina formlega sem minningargjöf um látna Lionsmenn í Baldri og látna maka félaga. Fjölmenni var við athöfnina, Lionsmenn og makar þeirra, stjórnendur LSH, sjúklingar og aðstandendur.