Frá slysa- og bráðasviði:
"Starfsemi neyðarmóttöku vegna nauðgana verður haldið áfram í Fossvogi þrátt fyrir samdráttaraðgerðir sem nú standa yfir á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Skipulagi starfseminnar verður hins vegar breytt. Það er því ekki rétt að neyðarmóttakan verði lögð niður, eins og fram hefur komið í fjölmiðlaumræðu.
Nú þegar rekstur spítalans er til sérstakrar skoðunar er meðal annars endurskoðuð starfsemi neyðarmóttökunnar. Yfirlækni hennar var sagt upp með lögbundnum fyrirvara. Bakvöktum hjúkrunarfræðinga á dagvöktum virka daga var einnig sagt upp nú um áramótin, þ.e. frá kl. 8:00-16:00. Hjúkrunarfræðingar á slysa- og bráðadeild sem eru á dagvakt munu sinna þessu hlutverki. Bakvakt hefst virka daga kl. 16:00 og er allar helgar. Einnig er í skoðun að segja upp bakvakt ráðgjafa og að félagsráðgjafi í 50% starfi sinni neyðarmóttöku og öðrum verkefnum á slysa- og bráðadeild. Verið er að skoða samvinnu við sérfræðinga á kvennasviði þar sem flestir þolendur kynferðislegs ofbeldis eru konur. Þannig er gert ráð fyrir því að læknisþjónusta við þolendur kynferðislegs ofbeldis verði sótt til kvennasviðs, þjónusta hjúkrunarfræðinga verði hins vegar áfram á vegum slysa- og bráðasviðs.
Starfsemi neyðarmóttöku, sérhæfðrar móttöku fyrir þolendur kynferðispofbeldis, var komið á fót árið 1994. Það er viðurkennt að uppbygging neyðarmóttökunnar og þjónusta við þolendur kynferðisofbeldis hér á landi er með því besta sem gerist í hinum vestræna heimi. Í dag starfa 16 hjúkrunarfræðingar slysa- og bráðadeildar við móttöku einstaklinga sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þessir hjúkrunarfræðingar eru á bakvöktum og kallaðir út þegar einstaklingarnir koma inn á móttöku slysa- og bráðadeildar. Á bakvakt eru einnig ráðgjafar (félagsráðgjafar/sálfræðingur), og kvensjúkdómalæknar sem eru kallaðir út til að gera réttarfarslega læknisskoðun. Mjög mikilvægt er að safna þeim sönnunargögnum sem hægt er og fara rétt með þau ef þolandi vill kæra geranda. Læknar slysa- og bráðadeildar koma einnig að móttöku ef um mikið ofbeldi hefur verið að ræða og karlmenn eiga í hlut. Þjónusta lögfræðinga breytist ekki en þeir eru kallaðir til eftir þörfum. Einnig hefur verið starfandi yfirlæknir neyðarmóttöku vegna nauðgana í 20% starfi."