Ályktun frá Fagdeild hjartahjúkrunarfræðinga vegna fyrirhugaðrar helgarlokunar á bráðamóttöku LSH við Hringbraut:
"Á bráðamóttöku LSH við Hringbraut er sérhæfð móttaka fyrir hjartasjúklinga. Uppbygging þeirrar móttöku hófst í kjölfar sameiningar stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík. Þessi sérhæfða bráðamóttaka er lífæð hjartasjúklinga hér á landi. Bráðir hjartasjúkdómar eru lífsógnandi ástand og öllu máli skiptir að meðferð geti hafist tafarlaust.
Það skiptir sköpum fyrir bráðveika hjartasjúklinga að geta komið beint inn á bráðamóttöku við Hringbraut, í hendur sérhæfðra lækna og hjúkrunarfræðinga og fá greiningu og meðferð sem fyrst.
Því fyrr sem meðferð hefst því minni líkur verða á alvarlegri skemmd í hjartavöðva og þar með er dregið úr líkum á alvarlegum fylgikvillum.
Skjót og örugg meðferð getur gjörbreytt batahorfum hjartasjúklinga og fækkað legudögum.
Lokun bráðamóttöku LSH við Hringbraut um helgar frá kl.16:00 á föstudegi til kl.08:00 á mánudegi er ábyrgðarlaus ákvörðun, byggð á vanþekkingu. Slík vinnubrögð eru með öllu óviðunandi."