Kvenfélagið Hringurinn er 100 ára í dag, 26. janúar 2004. Þessum tímamótum hafa Hringskonur fagnað með ýmsum hætti undanfarið ár. Þar á meðal með opnun Barnaspítala Hringsins fyrir einu ári og stórgjöfum til hans. Jafnframt kom út saga félagsins í glæsilegri bók. En Hringskonur hafa hvergi nærri lagt árar í bát þótt stærsti draumurinn hafi ræst, þ.e. að nýr barnaspítali risi. Í afmælishófi sínu á Hótel Nordica síðastliðið laugardagskvöld var enn tilkynnt um stórgjafir Hringsins í þágu starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss. Hringskonur hafa ákveðið að gefa 50 milljónir króna til barna- og unglingageðdeildar (BUGL) vegna væntanlegrar byggingar fyrir göngudeild. Þar að auki gefa Hringskonur 15 milljónir króna til að kaupa húsnæði fyrir fólk af landsbyggðinni sem þarf að dvelja í höfuðborginni vegna barna sinna meðan þau eru til aðhlynningar á barnaspítalanum.
Hringskonur gefa BUGL 50 milljónir
Í tilefni af 100 ára afmæli kvenfélagsins Hringsins hafa Hringskonur ákveðið að gefa 50 milljónir til byggingar fyrir göngudeild á barna- og unglingageðdeild og 15 milljónir til kaupa á húsnæði fyrir aðstandendur veikra barna af landsbyggðinni.