Ályktun vísindaráðs LSH
um samdráttaraðgerðir á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH)
26. janúar 2004
Niðurskurðurinn bitnar illa á vísindastarfi
Í þeim niðurskurði sem verið er að útfæra á LSH verður öll starfsemin fyrir áföllum og er vísindaþátturinn ekki undanskilinn. Vísindaráð LSH vill hér með undirstrika gildi vísindastarfs fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu og jafnframt að niðurskurðurinn mun hafa veruleg neikvæð áhrif á vísindastarf á LSH.
Gildi vísindavinnu: Vísindastarf samhliða lækningum og umönnun sjúklinga er forsenda góðrar heilbrigðisþjónustu og áframhaldandi framfara.
- Þríþætt hlutverk LSH. LSH er þekkingarfyrirtæki. Þjónusta við sjúklinga, kennsla og vísindastarfsemi eru samfléttaðir þættir í starfsemi spítalans. Skerðing á einum þeirra leiðir til lakari árangurs á öllum þremur. Vísindastarf skapar nýja þekkingu og gerir mögulegt að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í vísindalegum vinnubrögðum. Öflug kennsla og vísindastarf tryggja betur hæft starfsfólk til að annast sjúka og stuðlar að því að besta og hagkvæmasta meðferð er veitt á hverjum tíma. LSH gegnir forystuhlutverki á öllum þremur sviðunum. Niðurskurður á sviði vísinda mun leiða til lakari þjónustu við sjúklinga og kemur það fram bæði í hátækni og almennri heilbrigðisþjónustu og forvörnum.
- Íslensk heilbrigðisvísindi verða einungis framkvæmd á Íslandi. Íslensk heilbrigðisvandamál eru mörg hver sérstök og verða ekki leyst með innfluttri þekkingu. Má þar nefna mörg dæmi: Margar bakteríur og veiruafbrigði haga sér öðruvísi hjá Íslendingum en öðrum þjóðum og hafa annað næmi fyrir lyfjum. Erfðir Íslendinga eru um margt frábrugðnar öðrum þjóðum og hafa áhrif á tíðni og birtingu sjúkdóma. Fæði Íslendinga er sérstakt og í örri breytingu og hefur það áhrif á heilsufar. Umhverfi og félagslegir þættir hafa áhrif bæði á andlegt og líkamlegt heilsufar. Allir framangreindir þættir hafa þýðingu fyrir meðferð og forvarnir. Íslenskir heilbrigðisvísindamenn geta komið heim með mikla þekkingu og aðferðafræðilega þjálfun en íslensk heilbrigðisvísindi verða einungis framkvæmd á Íslandi.
- Vísindi og þekkingarsköpun er vannýtt auðlind. Líta má á þann efnivið sem skapast við heilbrigðisþjónustu á LSH sem dýrmæta rannsóknarauðlind sem ennþá er að verulegu leyti vannýtt. Þessi efniviður skapar möguleika á samstarfi við erlendar vísindastofnanir og þá um leið möguleika á háum erlendum styrkjum. Þó að megintilgangur heilbrigðisvísinda sé að skapa þekkingu og gera tilveru sjúklinganna betri þá geta þau einnig leitt til beins hagnaðar. Mörg sprotafyrirtæki hafa sprottið upp úr jarðvegi heilbrigðisþjónustunnar. Til þess að gera þetta mögulegt þarf hins vegar að auka fjárveitingar til vísindamála í stað þess að skera þær niður. Vaxtarbroddur nýjunga byggir á vísindastarfi.
Staða vísinda á LSH: Vísindastarf á LSH hefur vaxið undanfarin ár þrátt fyrir þröngan kost í fjármagni og aðstöðu. - Íslensk heilbrigðisvísindi hafa sýnt góðan árangur. Samkvæmt könnun RANNÍS 2001 eru birtar fleiri vísindagreinar byggðar á rannsóknum heilbrigðisstétta en frá öðrum fagstéttum. Tilvitnanir í þessar greinar jafnast á við það sem best gerist hjá öðrum þjóðum. Vísindamenn á LSH eiga verulegan þátt í þessum góða árangri sem byggir á mjög vel menntuðu starfsliði og einstökum efnivið til rannsókna. Þessi góði árangur í vísindum helst í hendur við góðan árangur í lækningum eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar (pdf) um sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík (bls. 64), en LSH náði betri árangri í níu flokkum af tíu miðað við bresk sjúkrahús. Niðurskurðurinn stofnar þessari þróun í hættu.
- Menntamálayfirvöld hafa ekki stutt klíníska kennslu og vísindastörf við LSH.Eitt af því sem hefur tafið þróun vísinda og kennslu á LSH er að engar beinar fjárveitingar hafa verið til þessara þátta. Niðurskurður til kennslu og vísinda á LSH, sem nú þarf að útfæra, dregur skýrt fram hve greiðslur fyrir slíka starfsemi hafa verið illa skilgreindar á milli ráðuneyta heilbrigðis- og menntamála. Menntamálaráðuneyti hefur einungis innt af hendi greiðslur fyrir beina háskólakennslu. Vísindaráð beinir þeim tilmælum til menntamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis að þetta verði leiðrétt hið fyrsta.
- Opinberir samkeppnissjóðir vísinda á Íslandi eru mjög vanmáttugir. Á síðasta ári veittu samkeppnissjóðir RANNÍS 96 milljónir til heilbrigðis- og lífvísinda. Ef miðað er við höfðatölu þá er þetta fimmfalt lægri fjárhæð en sambærilegir sjóðir veittu í Finnlandi og fimmtán sinnum lægra en opinberir sjóðir í Bandaríkjunum veittu. Þrátt fyrir vilja hins opinbera til að efla þessa sjóði er ljóst að þeir munu þrátt fyrir það standa langt að baki sjóðum þeirra þjóða sem standa vel að þessum málum. Ljóst er að vísindamenn LSH geta ekki haldið uppi öflugri rannsóknarstarfsemi aðeins með stuðningi samkeppnissjóða RANNÍS.
Afleiðingar niðurskurðar á vísindastarf LSH: Niðurskurður á LSH bitnar mjög illa á vísindastarfi sjúkrahússins.
- Sameiningu sjúkrahúsanna er ekki lokið. Eitt meginmarkmið sameiningar sjúkrahúsanna var faglegur ávinningur sem í sumum greinum hefur náðst og þannig skapað tækifæri til góðrar vísindavinnu. Það hefur hins vegar lítið komið fram í umræðunni undanfarið að sameiningunni er engan veginn lokið og spítalinn er ennþá í sárum eftir það rask sem sameiningunni fylgir. Það blasir nú við að niðurskurðurinn tefur enn sameiningu deilda. Þetta ástand hefur lamandi áhrif á vísindastarf.
- Áhrif niðurskurðarins á vísindastarf blasa nú þegar við. Í fyrsta lagi er 30 milljóna króna beinn niðurskurður til þessara mála sem meðal annars felst í uppsögn á starfsfólki er styður vísindastörf eða vinnur einungis vísindavinnu. Þetta er mjög bagalegt þar sem þessi hlekkur vísindastarfs á LSH var veikur fyrir, eins og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar sést (bls. 69) að rannsóknarfólk er mun færra á LSH en á sambærilegum breskum sjúkrahúsum. Ennfremur er 25 milljóna króna niðurskurður á rekstri bókasafns LSH. Í öðru lagi hverfa 180 stöðugildi af spítalanum þótt verkefnin verði enn til staðar. Það þýðir að aðrir starfsmenn þurfa að mæta auknu álagi sem skerðir tíma þeirra og þrótt til að sinna vísindavinnu. Í þriðja lagi er fyrirhugað að úthlutanir úr Vísindasjóði LSH verði skertar, sem þýðir minna fjármagn til vísindarannsókna innan spítalans. Niðurskurður nú skapar hættu á að kæfa þá vísindastarfsemi sem náð hefur að dafna þrátt fyrir bágan kost hingað til.
Vísindaráð LSH lýsir yfir verulegum áhyggjum af niðurskurði hins opinbera til LSH og telur að hætta sé á að vísindastarf verði fyrir óafturkræfum skaða. Vísindaráð hvetur mennta- og heilbrigðisyfirvöld til að snúa þessari þróun við og stuðla að stóraukinni vísindastarfsemi enda muni slíkt átak bæði geta leitt til betri heilbrigðisþjónustu og aukins hagvaxtar.