Hugur og heilsa er umfangsmikið rannsóknarverkefni sem Eiríkur Örn Arnarson forstöðu forstöðusálfræðingur á Landspítala - háskólasjúkrahúsi hefur unnið að undanfarin ár ásamt fjölmörgum öðrum. Markmið rannsóknarinnar er að finna virkar leiðir til þess að koma í veg fyrir þunglyndi, að það taki sig upp og að þróa meðferð við því. Margir lögðu þessu verkefni lið árið 2003 með fjárstuðningi, svo sem Vísindasjóður LSH, Minningarsjóður Arnórs Björnssonar, RANNÍS, bandaríska stofnunin U.S. National Institute of Mental Health og Oddfellow stúkan Þórsteinn.
Um helmingur 14 til 15 ára unglinga sem greinast með mörg einkenni þunglyndis verða mjög alvarlega þunglyndir á táningsárunum. Þessi ungmenni eiga erfitt uppdráttar og er talið hættara en öðrum við að ánetjast áfengis- og fíkniefnum, eiga við atferlisröskun að stríða eða að verða utanveltu í skóla. Rannsóknin er í formi á námskeiðs sem byggir á hugmyndum hugrænnar atferlismeðferðar. Leitast er við að meta hversu áhrifarík námskeiðin "Hugur og heilsa" eru til að koma í veg fyrir þunglyndi þegar til lengri tíma er litið. Lögð eru próf fyrir nemendur í 9. bekk grunnskóla, m.a. til að meta þunglyndiseinkenni. Námskeiðin fara fram í hópum með 6-8 nemendum sem sálfræðingur stjórnar og hittist hópurinn 14 sinnum í 12 vikur. Námskeiðin hófust á Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ en síðar bættust við skólar á Akureyri, í Garðabæ, Reykjanesbæ og Reykjavík. Unglingarnir fá heimaverkefni, kennslu og leiðbeiningar. Hverjum þátttakanda verður fylgt eftir í tvö ár að námskeiði loknu eða til 17 ára aldurs. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess námskeiðin dragi úr einkennum þunglyndis og sporni við þróun þess.