Heilbrigðisráðuneytið hefur til skoðunar tillögu Landspítala - háskólasjúkrahúss um framtíðaruppbyggingu barna- og unglingageðdeildar (BUGL) við Dalbraut. Tillagan hefur fengið afar góð viðbrögð í ráðuneytinu og jafnframt hjá skipulagsyfirvöldum Reykjavíkurborgar. BUGL hefur lengi búið við þröngan húsakost á Dalbraut en gert er ráð fyrir úrbótum með því að byggja við húsin þar. Áætlaður kostnaður er um 340 milljónir króna.
Talsvert fé er nú þegar til í sjóði vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Dalbraut. Stjórnvöld veittu á síðasta árið 45 milljónir króna til að undirbúa verkefnið. Höfðingleg gjöf Hringskvenna, 50 milljónir króna, til barna- og unglingageðdeildar hleypti enn frekar krafti í undirbúninginn. Með sölu á Kleifarvegi 15 fást um 30 m.kr, auk þess sem sérstakur byggingarsjóður BUGL er að myndast með gjafafé. Samtals eru 140 m.kr tryggðar til verkefnisins. Margir einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök, í þeim hópi eru börn og unglingar, hafa að undanförnu stutt eða lýst vilja sínum til þess að styðja uppbygginguna. Skemmst er að minnast merkjasölu Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu um síðustu helgi þar sem allur ágóði rennur til BUGL.
Á ársfundi LSH 12. maí 2004 lýsti starfandi heilbrigðisráðherra, Árni Magnússon, einlægum vilja stjórnvalda til að halda áfram að bæta stöðu barna og unglinga sem eiga við geðræn vandamál að stríða: "Barna- og unglingageðdeildin veitir þjónustu hópi skjólstæðinga, sem á skilið allan stuðning samfélagsins. Nauðsynlegt er að friður ríki um þessi störf og að deildin njóti trausts fyrir faglega vinnu og umhyggjusama þjónustu. Okkur ber öllum að leggjast á árar til að tryggja að svo sé, og ég tel að ríkisstjórnin hafi sýnt vilja sinn í verki, og veit að haldið verður áfram á þeirri braut."
Í ávarpi sínu á ársfundi LSH greindi Áslaug Björg Viggósdóttir formaður Hringsins frá vilja Hringskvenna til þess að styðja áfram við framtíðaruppbygginguna við Dalbraut af alkunnum myndarskap Hringskvenna.
Magnús Pétursson forstjóri LSH kallaði í ávarpi sínu á ársfundinum eftir stuðningi landsmanna við það verk sem framundan er: "Ég höfða til almennings, ungra sem aldinna, einstaklinga og hópa, félaga og fyrirtækja að taka þetta málefni upp á sína arma, leggja því lið og fullgera verkið."
Næstu skref varðandi framtíðaruppbyggingu barna- og unglingageðdeildar við Dalbraut felast meðal annars í vinnu með skipulagsyfirvöldum Reykjavíkurborgar að skipulagi lóðar. Samkvæmt frumáætlunum má gera ráð fyrir því að þeirri vinnu ljúki í haust og byggingarundirbúningi að öðru leyti um næstu áramót, þannig að viðbótarhúsnæði BUGL geti verið tilbúið til notkunar um mitt ár 2006.