Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur sett Jóhannes M. Gunnarsson, skurðlækni, til að gegna starfi forstjóra LSH frá 1. september n.k. en þá hefst 8 mánaða námsleyfi Magnúsar Péturssonar, forstjóra LSH.
Jóhannes M. Gunnarsson hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra lækninga undanfarin 4 ár og tók við því starfi þegar Landspítali – háskólasjúkrahús var settur á fót árið 2000. Jóhannes er öllum hnútum spítalans kunnur. Hann hefur verið í framkvæmdastjórn spítalans og starfað sem staðgengill forstjóra um nokkurt skeið.
Í starf framkvæmdastjóra lækninga hefur heilbrigðisráðherra sett Vilhelmínu Haraldsdóttur, sérfræðing í lyflækningum og blóðsjúkdómum, en hún hefur gegnt starfi sviðsstjóra lækninga á lyflækningasviði II. Vilhelmína er menntuð í blóðlækningum í Hollandi og hefur verið starfsmaður sjúkrahússins allar götur frá árinu 1993.
Niels Chr. Nielsen, svæfingalæknir, sem er staðgengill framkvæmdastjóra lækninga, hefur fremur kosið að gegna því starfi áfram. Í ljósi þeirra breytinga sem ákveðnar eru næstu 8 mánuðina, munu verkefni forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga taka nokkrum breytingum. Niels mun hér eftir sem hingað til gegna starfi aðstoðarmanns framkvæmdastjóra lækninga en jafnframt taka að sér ýmis verkefni sem forstjóri felur honum. Starfsvettvangur Niels mun því aukast og aðild og þátttaka hans að skipulags- og rekstrarmálum eflast.