Skipaður hefur verið starfshópur til að vinna að útfærslu á tillögum um sameiningu Rannsóknarstofnunar LSH (RLSH), Blóðbankans og Rannsóknastofu í meinafræði (RÍM) í eitt rannsóknarsvið. Starfshópinn skipa Guðbjartur Ellert Jónsson verkefnastjóri á skrifstofu fjárreiðna og upplýsinga, Jónas Magnússon sviðsstjóri og Oddur Fjalldal sviðsstjóri sem jafnframt stýrir vinnunni. Starfshópnum er falið að skila niðurstöðu sinni til forstjóra LSH eigi síðar en 22. nóvember 2004. Að lokinni vinnu hans verður tekin endanleg ákvörðun um málið í framkvæmdastjórn.
Á vordögum 2004 skipaði forstjóri LSH nefnd sem var falið að yfirfara skipulag, einkum sviðaskipan, Landspítala - háskólasjúkrahúss, og gera tillögur til umbóta í því efni. Nefndin, undir stjórn Önnu Lilju Gunnarsdóttur, setti fram tillögur í tíu liðum. Þar var meðal annars lagt til að stofnað yrði eitt öflugt rannsóknarsvið og að því stæðu Rannsóknarstofnun LSH, myndgreiningarþjónusta, Blóðbanki og Rannsóknastofa í meinafræði (RÍM). Framkvæmdastjórn LSH hefur fjallað um tillögur nefndarinnar og telur rétt að undanskilja myndgreiningarþáttinn frá slíkum breytingum, fremur skuli stefna að því að núverandi Rannsóknarstofnun LSH, Blóðbanki og Rannsóknastofa í meinafræði verði skipulagslega eitt svið.
Í erindisbréfi kemur fram hvað starfshópurinn á að hafa í huga í vinnu sinni:
Með hvaða hætti megi ná framförum í faglegu starfi með því að sameina starfsemi ofangreindra eininga í eitt svið.
Með hvaða hætti megi ná fjárhagslegri hagræðingu við slíka sameiningu til dæmis með betri nýtingu tækja, sameiginlegum innkaupum, skrifstofuhaldi, reikningagerð og innheimtu.
Með hvaða hætti sameining geti bætt þjónustu við viðskiptaaðila s.s. deildir, stofnanir og einstaka lækna er vísa sjúklingum eða senda sýni til rannsókna.
Að fjárhagsleg aðgreining sérgreina innan sviðsins verði skýr og í samræmi við markmið spítalans um sérgreinar innan allra sviða spítalans.