Hafin er söfnun sem hefur þann tilgang að efla hjartaskurðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss með nýjustu tækni. Þar er um að ræða lítil gervihjörtu en það eru tæki sem grædd eru í brjósthol sjúklings og taka við starfi hjarta sem orðið hefur fyrir áfalli. Fyrir þessu landsátaki standa nýstofnaður Minningarsjóður Þorbjörns Árnasonar, "Í hjartastað", og Sparisjóðurinn. Þorbjörn var frá Sauðárkróki, lögfræðingur og varaformaður Landssamtaka hjartasjúklinga. Hann lést í nóvember 2003, 55 ára að aldri.
Aðal söfnunardagurinn verður laugardagurinn 6. nóvember 2004.
Þá verða stórtónleikar í Háskólabíó sem hefjast kl. 14:00 og allan daginn dagskrá á Bylgjunni og símasöfnun.
Hægt er að hringja beint í síma 540 4040.
Einnig að fara inn á www.spar.is
Sent hefur bréf til tugþúsunda karlmanna þar sem leitað er eftir áskrift að sjóðnum "Í hjartastað" með því að greiða andvirði eins sígarettupakka á mánuði næstu þrjú árin. Nánari upplýsingar á spar.is með því að smella hér.
Hjálmar Jónsson dómskirkjuprestur
er formaður minningarsjóðsins um Þorbjörn Árnason:
Oft hefur það sýnt sig hverju einhuga samheldni fær áorkað með okkar þjóð. Þegar við leggjum af mörkum eitt og sérhvert eftir efnum og ástæðum þá gerast kraftaverkin. Öll þekkjum við ótímabær dauðsföll. Öll höfum við séð á bak ástvinum sem við gjarnan vildum fá að hafa hjá okkur miklu lengur. Algengasta dánarorsök á Íslandi er af völdum hjartasjúkdóma. Dauðsföllunum hefur þó fækkað að mun á undanförnum árum. Forvarnarstarf hefur sitt að segja og þá ekki síður hitt að nú eru 250 til 300 hjartaskurðaðgerðir framkvæmdar árlega hér á landi. Þær gjörbreyta lífi og möguleikum þessa hóps til frambúðar. Um leið og við minnumst allra þeirra sem látist hafa löngu fyrir tímann skulum við hugsa til þeirra mörgu sem unnt verður að hjálpa á næstu árum. Horfum til aðstæðna og tilfinninga okkar harðsnúna skurðstofuliðs og hjartateymis á hjartadeildunum. Að eiga kost á að græða gervihjarta í sjúkling með tiltölulega einföldum hætti í stað þess að ganga þung spor fram til ástvina hans og segja við þá: "Það var ekkert hægt að gera. Hjartað hafði skaðast svo alvarlega við áfallið. Við samhryggjumst ykkur." Með hinni nýju tækni er hægt að bjarga mannslífum og auka lífslíkur til muna. Leggjumst öll á eitt til að takmark LANDSÁTAKSINS náist. Við megum engan missa úr fjölskyldu landsmanna. |
Hjartalag Texti: Hjálmar Jónsson Lag: Jóhann Helgason Söngur: Brigitta Haukdal og Páll Rósinkranz Það bærist alltaf í brjósti hljótt, það ber þér lífsvökvann dag og nótt. Á öllum stundum með traustan takt, það tekur slögin á ævivakt. Og hindrun ýmsa á æviferð það yfirstígur með sinni gerð. En mynd þíns hjarta er mildin sterk og máttur þess lífsins kraftaverk. Í huga þínum er hjartans mál það heila´og fagra í þinni sál. Jafnt ástin ljúfa sem hugsjón há er hjarta bundin og Guði frá. |