Lionsklúbburinn Víðarr í Reykjavík, ásamt 18 öðrum Lionsklúbbum á landinu, hefur fært Landspítala - háskólasjúkrahúsi að gjöf rafleiðnigreini (mapping system) sem er tæki til kortlagningar á leiðslukerfi hjartans. Alþjóða hjálparsjóður Lions lagði einnig fram fé, svo og Landssamtök hjartasjúklinga og Vátryggingafélag Íslands. Verðmæti tækisins nemur um 15 milljónum króna. Það er frá Biosense Webster en móðurfyrirtæki þess er Johnson & Johnson og Austurbakki hf. umboðsaðili hér á landi.
Á undanförnum áratug hafa þróast svokallaðar brennsluaðgerðir til að lækna hluta vissra hraðsláttartruflana. Þetta hafa fyrst og fremst verið aðgerðir á aukaleiðsluböndum og á leiðslukerfi hjartans. Nýlega hafa komið fram aðferðir til að lagfæra erfiðar raftruflanir í gátta- og slegilsvef hjartans. Þær þarfnast hins vegar miklu víðtækari kortlagningar á rafleiðni í hjartanu. Forsenda fyrir árangri við þessa nýju meðferð er rafleiðnigreinir með flóknum tölvubúnaði til að kortleggja rafleiðni í hólfum hjartans. Með því móti má staðsetja brennslu miklu markvissar en áður hefur verið unnt og meðhöndla erfiðari tilfelli, t.d. slegilstruflanir hjá sjúklingum sem fengið hafa hjartastopp og truflanir sem koma í kjölfar hjartaaðgerða.
Tveir íslenskir sérfræðingar hafa nauðsynlega menntun og þjálfun til flókinnar og sérhæfðrar meðferðar við hjartsláttartruflunum. Meðferðin er veitt á Landspítala - háskólasjúkrahúsi og er öllu landinu þjónað. Talið er að 2000 – 3000 manns þjáist af hjartsláttartruflunum á Íslandi, bæði börn og fullorðnir. Fjölgun aðgerða er fyrirsjáanleg með nýjum meðferðarúrræðum. Þurft hefur að senda sjúklinga með erfiðar truflanir í skyndi til annarra landa, oft mjög veika. Slíkir flutningar eru mjög óhentugir og erfiðir og stundum hættulegir fyrir sjúklinginn. Gera má ráð fyrir því að þessar ferðir leggist að mestu af. Meðferðin er venjulega varanleg og lyfjameðferð eftir aðgerð yfirleitt óþörf. Hér er því á ferðinni mjög stórt framfaramál fyrir fjölmarga íslenska sjúklinga.
Tækjabúnaðinum öllum má skipta í tvo hluta, grunnbúnað og rafleiðnigreini. Grunnbúnaðurinn er tölvubúnaður sem skráir og túlkar rafboð, bæði utan líkamans og boð frá rafskautum sem komið er fyrir inni í hjartanu. Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur hefur nú þegar lagt fram fé vegna kaupa á þeim hluta búnaðarins. Rafleiðnigreinirinn tengist þessum grunnbúnaði.
Myndir:
Ásgeir Þorvarðarson formaður Lionsklúbbsins Víðarrs og Pétur Már Jónsson í sérverkefnanefnd afhentu gjöfina sem Jóhannes M. Gunnarsson forstjóri tók við fyrir hönd Landspítala - háskólasjúkrahúss. (Fyrir ofan)
Gizur Gottskálksson hjartasérfræðingur skýrir fyrir gestunum hvernig rafleiðnigreinir virkar og hvers má vænta af notkun hans.
Ásgeir Þorvarðarson formaður Lionsklúbbsins Víðarrs og Pétur Már Jónsson í sérverkefnanefnd afhentu gjöfina sem Jóhannes M. Gunnarsson forstjóri tók við fyrir hönd Landspítala - háskólasjúkrahúss.
Lionsmenn gefa rafleiðnigreini til hjartalækninga
Lionsmenn hafa gefið 15 milljóna króna rafleiðnigreini til hjartalækninga á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.