Framkvæmdastjórn LSH hefur samþykkt stefnu við ákvörðun starfsheita á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.
Samkvæmt framsali forstjóra frá 22. mars 2002 er það almennt í höndum framsalshafa (sviðsstjóra og framkvæmdastjóra) að gera starfslýsingar fyrir störf er undir þá heyra. Ákvarðanir um starfsheiti skulu vera í höndum kjara- og launanefndar LSH.
Ósk um nýtt eða breytt starfsheiti skal borin fram skriflega ásamt rökstuðningi og send kjara- og launanefnd LSH sem tekur ákvörðun í málinu.
Við ákvörðun um starfsheiti og gerð starfsheitakerfis fyrir Landspítala - háskólasjúkrahús skal að því stefnt:
· að starfsheiti séu lýsandi fyrir viðkomandi starf
· að ekki sé gengið á svig við lögákveðin (lögvernduð) starfsheiti
· að tekið sé tillit til stöðu starfs í skipuriti þar sem það á við
· að unnt sé að nota starfsheitin sem grundvöll að röðunarkerfum starfa í stofnanasamningum
· að höfð sé í huga birting á auðkenniskortum starfsmanna (öryggis- og gæðasjónarmið)
· að starfsheiti séu ekki tæki til launahækkana starfsmanna
· að starfsheiti séu í samræmi við starfsmanna- og jafnréttisstefnu LSH
· að þau samræmist almennri málnotkun og/eða málvitund
Starfsnúmerakerfi skal ákveðið af sömu aðilum í samvinnu við þá sem hagsmuna hafa að gæta innan stofnunarinnar. Starfsnúmerakerfið skal einkum hannað með eftirlit og úrvinnslu upplýsinga í huga.