Jóhannes M. Gunnarsson
forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss
Kæru starfsmenn!
Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og þakka samstarfið á árinu sem er að líða.
Bráðum eru fimm ár liðin síðan Landspítala - háskólasjúkrahúsi var hleypt af stokkum með sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík. Þau ár hafa liðið hratt en verið viðburðarík. Frá byrjun var haft að leiðarljósi að móta háskólasjúkrahús sem gæti í nútíð og framtíð staðið undir væntingum fólks um góða þjónustu við sjúklinga, vandað kennslustarf og öfluga rannsóknar- og vísindastarfsemi. Ein af grundvallarforsendum þess var að stokka spilin og gefa á ný með því að leggja saman starfskrafta fólks. Í því sambandi hefur verið lögð rík áhersla á sameiningu sérgreina til þess að styrkja þær í verkefnum sínum. Þeirri vinnu hefur stundum fylgt umrót og erfiðleikar en nú, þegar hún er vel á veg komin, geta starfsmenn LSH litið stoltir yfir verk sem er sannarlega þeirra afrek fyrst og fremst. Með því að endurskipuleggja sérgreinarnar hefur tekist að gera þeim betur kleift að rækja hlutverk sitt. Það vekur til dæmis athygli að biðlistar, sem hafa verið mikið vandamál í starfseminni, eru nú smám saman að hverfa.
Fjöldamargt annað hefur verið gert til þess að styrkja háskólasjúkrahúsið. Í því sem öðru hafa starfsmenn allra stétta lagt hönd á plóg. Húsakynni hafa víða verið endurnýjuð og öflug tæki fengin til þjónustu við sjúklinga og tekinn í notkun margs konar upplýsingatæknibúnaður í klínískri þjónustu og til samskipta innan stofnunar eða stjórnunar. Verkferlar hafa verið endurmetnir og settar reglur, til dæmis varðandi lyfjamál og innkaup. Stjórnunarlegir innviðir hafa verið styrktir og endurmenntun og þjálfun starfsmanna verið efld svo nokkuð sé nefnt. Í þessu öllu verða áfram óþrjótandi verkefni sem ég vona að starfsfólk sjúkrahússins verði eins og áður áhugasamt um að vinna að.
Það hefur vissulega gefið á skútuna á stuttri ævi Landspítala - háskólasjúkrahúss. Rekstur hennar verður óhjákvæmilega að miðast við þá fjármuni sem stjórnvöld ákveða stofnuninni á fjárlögum. Í fjárlögum fyrir árið sem nú er að kveðja var sérlega naumt skammtað. Það leiddi til þess að draga þurfti saman seglin. Þetta kom því miður víða fram í starfseminni og hjá starfsmönnum sjálfum. Þótt ekki hafi verið hægt að standa að fullu við þær kröfur sem stjórnvöld gerðu um aðhald í rekstrinum verður ekki annað sagt en furðu vel hafi tekist til og starfsemin á sama tíma aukist og eflst. Skútan siglir því stolt í höfn í lok ársins og er þess albúin að halda í nýja ferð á nýju ári til þjónustu við landsmenn. Nýsamþykkt fjárlög ársins nægja ekki til að greiða upp gamlar skuldir, né endurnýja öll segl og fylla lestar af vistum. Enn þarf að gæta að veðurspám og halda fast um stýrið. Óhætt er að segja að staðan er hvergi nærri eins slæm og við síðustu áramót þegar ekki varð hjá því komist að sjá á bak mörgum góðum sjóliða og sleppa nokkrum siglingaleiðum sem höfðu verið á sjókortum.
Við jól og áramót skulum við fyrst og fremst horfa til framtíðar. Á þessu ári hefur ekki aðeins verið hugað að því að bæta daglega starfsemi á sjúkrahúsinu og í næstu framtíð. Það hefur einnig verið lögð mikil vinna í það að undirbúa byggingu nýs sjúkrahúss við Hringbraut. Um 300 manns komu að umfangsmikilli vinnu sem stýrinefnd notendavinnu hafði umsjón með. Skýrsla nefndarinnar liggur nú fyrir en í henni er reynt að meta hvers konar háskólasjúkrahús Íslendingar þurfa á næstu áratugum. Næsta skref felst í því að efna til arkitektasamkeppni um skipulag lóðarinnar við Hringbraut og þess er vænst að niðurstöður hennar geti legið fyrir næsta haust. Það er mjög mikilvægt að við höldum áfram að standa þétt saman að þeirri framtíðaruppbyggingu sjúkrahússins sem hér hefur verið lagður grunnur að.
Með kærri kveðju og þökk fyrir frábært starfsframlag á árinu sem er að líða.
Jafnframt óska ég öllum landsmönnum gleðilegra jóla og gæfu á komandi tíð.
Jóhannes M. Gunnarsson
forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss