"Vísindastörf á Landspítala - alþjóðlegur og íslenskur samanburður" er yfirskrift greinar sem birt er í 12. tölublaði Læknablaðsins 2004. Um er að ræða rannsókn þriggja starfsmanna LSH, Sigurlaugar Sveinbjörnsdóttur sérfræðings í taugasjúkdómum, Önnu Sigríðar Guðnadóttur bókasafnsfræðings og Bjarna Þjóðleifssonar sérfræðings í lyflækningum og meltingarsjúkdómum.
Meðal annars kemur fram að vísindastarf á Landspítala var í örum vexti fram til ársins 2003 og stóð það ár í miklum blóma bæði hvað varðar magn og gæði. Birtum ISI greinum (Institute of Scientific Information) frá Íslandi fjölgaði um 50% á ári allt tímabilið 1981 - 2003 og hlutur LSH í birtum greinum óx úr 20% í 28% á tímabilinu 1999 - 2003. Greinarhöfundar telja að meginstyrkur LSH á þessu sviði sé mikill mannauður og benda á að um fimmtungur 2500 háskólamenntaðra starfsmanna við stofnunina sé virkur í vísindavinnu, aðallega á sviði heilbrigðisvísinda. Þessir starfsmenn eigi aðild að 70% greina sem birtar eru um læknisfræði frá Íslandi og sennilega enn stærra hlutfalli tilvitnana.