Hætt hefur verið við fyrirhugaða seinni ferð til Taílands til þess að sækja Svía sem slösuðust í náttúruhamförunum þar annan dag jóla. Sænsk stjórnvöld afturkölluðu núna upp úr hádegi beiðni um að sú ferð yrði farin. Skýringin er sú að þeir sjúklingar frá Svíþjóð sem eru eftir á sjúkrahúsum í Taílandi eru of þungt haldnir til þess að hægt sé að flytja þá með flugvél heim.
Flugvél Loftleiða millilenti núna um kl. 13:30 í Dubaí á leið sinni frá Bankok til Stokkhólms í ferð sem hófst í fyrradag. Um borð eru 18 manns á sjúkrabörum og 40 sitjandi sjúklingar og aðstandendur. Svíarnir njóta umönnunar 6 lækna og 12 hjúkrunarfræðinga frá Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Friðrik Sigurbergsson læknir sagði núna áðan að ferðin til Dubaí hefði gengið vel. Margir væru talsvert mikið slasaðir en ástand þeirra þó stöðugt, aðeins minniháttar fylgikvillar hefðu komið upp á leiðinni. Andlegt ástand allra væri mjög slæmt. Friðrik sagði einnig að íslenski hópurinn léti vel af sér en nokkur þreytumerki sæjust eftir langt ferðlag og strangt.
Flugvélin er væntanleg til Stokkhólms milli kl. 22:00 og 23:00 í kvöld. Íslensku heilbrigðisstarfsmennirnir verða í Stokkhólmi í nótt og eru væntanlegir heim með áætlunarflugi þaðan á morgun.