Svíarnir sem læknar og hjúkrunarfræðingar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi sóttu til Bankok í Taílandi með flugvél Loftleiða, ásamt íslenskum hjálparsveita- og slökkvliðsmönnum og fulltrúa Ríkislögreglustjóra, eru komnir til Stokkhólms. Vélin lenti á Arlanda flugvelli um kl. 22:45 í kvöld að íslenskum tíma eftir nærri 17 klukkustunda ferðalag frá Taílandi með millilendingu í Dubaí. Um borð voru 18 sjúklingar á sjúkrabörum og um 40 sjúklingar og aðstandendur í sætum. Ferðalagið frá Bankok gekk áfallalítið. Fólkið er mismikið slasað en á það sammerkt að hafa gengið í gegnum mjög alvarlega lífsreynslu og sumir misst sína nánustu í náttúruhamförunum annan jóladag.
Íslenski hópurinn dvelur á hóteli í Stokkhólmi í nótt en verður væntanlega ekki kominn þangað fyrir en um kl. 02:00 eða síðar. Þar gefst kærkomin hvíld eftir þetta langa og stranga ferðalag og um sólarhrings vinnutörn. Hópurinn kemur svo heim síðdegis á morgun.
Í dag var hætt við að fara aðra ferð til Taílands eins og til stóð.