Blóðbankinn hefur nú hafið skráningu á sjálfboðaliðum í stofnfrumugjafaskrá (beinmergsgjafaskrá) hér á landi. Íslenska stofnfrumugjafaskráin verður hluti af norsku stofnfrumugjafaskránni The Norwegian Bone Marrow Donor Registry. Sjálfboðaliðum verður safnað hér á landi og upplýsingar um þá sendir til NBMDR. Íslensku gjafarnir verða einnig skráðir hjá BMDW(Bone Marrow Donors Worldwide). Stefnt er að því að skrá 500 sjálfboðaliða í stofnfrumugjafaskrána hér á landi á þessu ári og alls 2.500 að fimm árum liðnum. Lyfjafyrirtækið Actavis og Norræna ráðherranefndin hafa styrkt Blóðbankann í tengslum við stofnun stofnfrumugjafaskrárinnar.
Sjúklingarnir sem þurfa á stofnfrumum að halda eru oftast með illkynja blóðsjúkdóma eða eitlaæxli en jafnframt getur verið um að ræða sjúklinga með meðfædda ónæmisgalla. Ef sjálfboðaliði er með sama, eða mjög líkan, vefjaflokk og sjúklingur með illkynja sjúkdóm einhvers staðar í heiminum er þess farið á leit við viðkomandi að hann gefi sjúklingi stofnfrumur. Með stofnun skrár á Íslandi aukast líkur enn frekar á því að sjúklingar hér á landi geti fengið stofnfrumur ef á þarf að halda.
Blóðbankinn hefur um fimm ára skeið unnið að undirbúningi stofnfrumugjafaskrárinnar. Hér er um að ræða skrá yfir vefjaflokka sem mynda svonefnt HLA-kerfi (human leukocyte antigen). Kerfið greinir einn einstakling frá öðrum og hefur afgerandi þýðingu þegar velja skal þá sem geta gefið öðrum beinmerg eða blóðmyndandi stofnfrumur. HLA-kerfið hefur jafnframt afgerandi þýðingu þegar leitað er eftir mögulegum líffæra- eða stofnfrumugjafa úr hópi náinna ættingja. Af þeim sökum hefur Blóðbankinn sinnt vefjaflokkunarþjónustu um langt skeið. Vefjaflokkar eru annars vegar greindir með rannsókn á hvítum blóðkornum og hins vegar með greiningu á DNA-erfðaefni.
Fram kemur á vefsvæði norsku stofnfrumugjafaskrárinnar að 172 Norðmenn höfðu þegið stofnfrumur úr óskyldum einstaklingi með aðstoð stofnfrumugjafaskráa um heim allan fram til ársins 2002. Þeir sjálfboðaliðar sem gáfu stofnfrumur til norskra sjúklinga komu frá 17 þjóðlöndum. Ef gjöf með stofnfrumum stæði þessum sjúklingum ekki til boða væru engin sambærileg úrræði tiltæk fyrir þá.
Fyrsta stofnfrumugjafaskráin The Anthony Nolan Trust (ANT) var stofnuð í Bretlandi árið 1974. 31 ári síðar er að finna rúmlega níu milljónir manna á stofnfrumugjafaskrám um heim allan. Þá eru í kringum 5.300 stofnfrumuígræðslur með stofnfrumur frá óskyldum sjálfboðaliðum framkvæmdar árlega, samkvæmt upplýsingum frá bandarískum regnhlífarsamtökum stofnfrumugjafaskráa. Til að hafa sem mest gagn af upplýsingum í stofnfrumugjafaskrám um allan heim hafa verið stofnuð alþjóðlegu samtökin BMDW sem gera það mögulegt að leita að stofnfrumugjafa hvar sem er í heiminum. 53 stofnfrumugjafaskrár í 39 löndum eru í samtökunum.
Á myndinni eru Thorstein Egeland læknir,
Harpa Leifsdóttir starfsmaður Actavis og
Sveinn Guðmundsson yfirlæknir Blóðbankans
18. janúar 2005
Harpa Leifsdóttir starfsmaður Actavis og
Sveinn Guðmundsson yfirlæknir Blóðbankans
18. janúar 2005