Læknaráð og hjúkrunarráð LSH fagna þeirri mikilvægu ákvörðun ríkisstjórnar Íslands í dag, að heimila að hönnunarsamkeppni fari fram um byggingu spítalans og að tekin verði næstu skref til frekari undirbúnings að uppbyggingu sjúkrahússins. Þá er fagnað þeim góða meðbyr sem bygging nýs sjúkrahúss hefur hlotið í þjóðfélagsumræðunni að undanförnu.
Það er afar þýðingarmikið fyrir þjóðina að eignast nýjan spítala sem fyrst, svo unnt verði að ljúka sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík á einum stað, enda felast í því hagræðingarmöguleikar bæði í rekstri og þjónustu. Þrátt fyrir háan stofnkostnað nýs sjúkrahúss, jafngildir sá kostnaður aðeins því sem nemur rekstri sjúkrahússins í tæpt eitt og hálft ár. Nýtt húsnæði er því góð fjárfesting sem skilar sér fljótt í bættri þjónustu og hagkvæmum rekstri.
Það hefur háð þjónustu LSH verulega að ekki hefur verið hægt að ljúka sameiningu sjúkrahússins. Faglegur, ekki síður en rekstrarlegur, vandi hlýst af því að sérgreinar lækninga eru ekki nátengdar á einum stað. Þá er húsakostur og tækjabúnaður víða úr sér genginn, aðstaða fyrir sjúklinga er ekki nógu góð og vinnuaðstaða starfsfólks ófullnægjandi.
Brýnt er að framkvæmdir við nýtt sjúkrahús hefjist sem fyrst. Líklegt er að uppbyggingunni verði skipt í áfanga og er fullum stuðningi lýst við þá forgangsröðun, sem ákveðin hefur verið, þ.e. að bygging húsnæðis fyrir slysa- og bráðaþjónustu verði sett í forgang ásamt húsnæði fyrir rannsóknareiningar.
Læknaráð og hjúkrunarráð hafa af því miklar áhyggjur hversu langur tími virðist ætlaður til undirbúnings framkvæmda. Því er hvatt til þess að allar leiðir verði skoðaðar til að flýta uppbyggingunni, bæði hvað varðar fjármögnun, svo og byggingarframkvæmdirnar sjálfar.
Reykjavík 18. janúar 2005
Gyða Baldursdóttir, formaður hjúkrunarráðs LSH
Friðbjörn Sigurðsson, formaður læknaráðs LSH