Stjórn Rannsóknasjóðs hefur veitt styrk til viðamikillar rannsóknar á meðgöngu- og fæðingarþunglyndi íslenskra kvenna, félagslegum aðstæðum þeirra, notkun á geðvirkum efnum og tengslum þess við þroska barna þeirra. Um er að ræða verkefnisstyrk til þriggja ára og nemur upphæð styrksins á þessu ári 3,3 milljónum króna. Aðstandendur rannsóknarinnar eru fjórir starfsmenn á geðsviði Landspítala - háskólasjúkrahúss, Halldóra Ólafsdóttir yfirlæknir ferli- og bráðadeildar sviðsins, Jón Friðrik Sigurðsson forstöðusálfræðingur á geðsviði og verkefnisstjóri rannsóknarinnar og sálfræðingarnir Pétur Tyrfingsson og Urður Njarðvík. Aðrir umsækjendur eru Arnar Hauksson yfirlæknir Miðstöðvar mæðraverndar og Marga Thome dósent í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.
Meginmarkmið rannsóknarinnar er að kanna þunglyndiseinkenni, notkun geðvirkra efna og sálfélagslega þætti í úrtaki þungaðra kvenna og finna breytur sem spá fyrir um fæðingarþunglyndi og að kanna tengsl þess við þroska barna við eins árs aldur. Með rannsókninni munu fást upplýsingar um þörf á þjónustu fyrir konur með meðgöngu- og fæðingarþunglyndi, mótaðar verða skimunar- og greiningaraðferðir og þar með lagður grunnur að árangursríkari íhlutun og þjónustu af hálfu mæðraverndar og geðheilbrigðiskerfis.