Átján umsóknir bárust í forvali um skipulagshönnun vegna fyrirhugaðrar byggingar nýs spítala við Hringbraut.
Listi yfir umsækjendur er birtur á vef Ríkiskaupa.
Á bakvið hvert heiti á listanum eru sérfræðingahópar og fyrirtæki, jafnvel frá mörgum löndum og þar á meðal Íslandi.
Boðað var til skipulagssamkeppninnar í janúar 2005. Í fyrra þrepi hennar fólst að finna sérfræðingahópa sem vildu taka þátt í sjálfri samkeppninni um skipulag lóðarinnar við Hringbraut til undirbúnings byggingu nýs sjúkrahúss. Nú hefur komið í ljós að 18 hópar sýna verkefninu áhuga og þeir eru frá löndum beggja vegna Atlantshafsins. Þessir hópar verða nú metnir og sjö þeirra valdir til þess að halda áfram, samkvæmt hæfisreglum sem fyrir lágu við upphaf samkeppninnar. Það á að liggja fyrir um 20. apríl hverjir verða fyrir valinu. Þeir skila tillögum sínum síðsumars og dómnefnd velur síðan bestu lausnina. Endanleg úrslit í skipulagssamkeppninni eiga að liggja fyrir í lok september í haust.