Teigur, ný meðferðarmiðstöð vímuefnadeildar LSH, var opnuð með viðhöfn í endurnýjuðu húsnæði á jarðhæð geðdeildarbyggingarinnar við Hringbraut 15. mars 2005, að viðstöddum heilbrigðisráðherra og fjölda annarra gesta. Um leið fékk almenn dag- og göngudeild geðsviðs endurnýjað viðbótarhúsnæði á sömu hæð þar sem taugadeild var áður til húsa. Húsnæðið var endurnýjað með sérstöku framlagi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. | ||
Teigur var áður á Flókagötu 29 og 31 en þar eru nú sambýli fyrir geðfatlaða. Nálægð þessarar nýju dagdeildar við göngudeild, bráðamóttöku, legudeildir og iðjuþjálfun býður nú upp á betri samnýtingu og samhæfingu meðferðarúrræða og mannafla. Á Teigi var á sínum tíma fyrsta dagdeildarmeðferðin hérlendis fyrir fólk með áfengis- og vímuefnavanda. Hún hefur verið í endurskoðun í nokkur ár og veigamiklar breytingar verið gerðar á innihaldi og framkvæmd hennar með auknu vægi sálfræðimeðferðar. Meira mið er tekið af árangursrannsóknum og aukin áhersla lögð á að þjóna fólki með fjölþættan vanda, t.d. bæði geðröskun og vímuefnavanda. Nýja meðferðin hefur verið reynd frá áramótum og gengið vel. Lögð er áhersla á aukna teymisvinnu og samrekstur en til þessa hefur starfsemi vímuefnadeildar verið þrískipt, göngudeild, sérhæfð geðdeild til innlagna og dagmeðferðardeild á Teigi. Í öðru lagi er aukin áhersla á staðlaða greiningu á vandamálum og styrkleikum þeirra sem leita til vímuefnadeildar, í þriðja lagi á einstaklingsbundnar þarfir og vanda. Í fjórða lagi verður byggð upp þjónusta fyrir fólk með aðrar geðraskanir auk fíkniefnavanda. Í meðferðinni er beitt áhugahvetjandi viðtalstækni þar sem einstaklingnum er hjálpað að skilgreina og meta eigin vanda og stöðu, einnig hugrænni atferlismeðferð, sálfræðilegri nálgun sem hefur verið í örum vexti síðasta aldarfjórðunginn. Sú nálgun við meðferð vímuefnavanda er ný á Íslandi. |
||
Á stuttum tíma hefur komum á almenna dag- og göngudeild geðsviðs við Hringbraut fjölgað mjög. Þær voru 8.700 árið 2001 en 16.500 í fyrra. Skortur á viðtals- og vinnuherbergjum var því farin að hefta starfsemina og nýja viðbótarhúsnæðið bætir úr brýnni þörf. Hluti húsnæðisins hefur verið innréttaður sérstaklega sem dagdeild fyrir átröskunarsjúklinga. Í dagdeildinni hefur verið komið upp netkaffi þar sem einstaklingar í meðferð geta notað sér tölvutæknina til náms, þjálfunar og dægrastyttingar. Um leið er horft til framtíðar því víða eru í þróun tölvuprógrömm til að styrkja og efla aðra meðferð við algengum geðröskunum, m.a. við átröskunum. |
||
Halldóra Ólafsdóttir yfirlæknir almennrar dag- og göngudeildar geðsviðs stýrði opnunarhátíðinni og sýndi heilbrigðisráðherra ný og glæsileg húsakynni eftir að hafa fagnað opnun Teigs með því að færa hæstráðendum þar blómvönd. Yfirlæknir vímuefnadeildar er Bjarni Össurarson og deildarstjóri Katrín Guðjónsdóttir. Deildarstjóri almennrar dag- og göngudeildar er Guðrún Úlfhildur Grímsdóttir. |
Ávörp við opnunarhátíðina: (Hlekkirnir eru óvirkir) |
Opnunarhátíð Teigs og almennrar dag- og göngudeildar geðsviðs
Teigur, meðferðarmiðstöð vímuefnadeildar, er komin í nýtt húsnæði við Hringbraut og almenn dag- og göngudeild geðsviðs hefur fengið endurnýjað viðbótarhúsnæði þar sem er meðal annars gert ráð fyrir dagdeild fyrir átröskunarsjúklinga.