Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað dómnefnd vegna skipulagssamkeppni til undirbúnings deiliskipulagi á lóðinni við Hringbraut þar sem fyrirhugað er að reisa nýtt sjúkrahús. Dómnefndinni er ætlað að fara yfir samkeppnisgögn sem verið hafa í undirbúningi af hálfu LSH og Framkvæmdasýslu ríkisins.
Hóparnir sjö eiga síðan gera tillögur á grundvelli samkeppnisgagnanna og skila þeim til dómnefndarinnar 1. september í haust.
Dómnefndinni er ætlað að afhenda ráðherra niðurstöður sínar þann 30. september. Hún á að skila stuttri greinargerð um hverja tillögu með rökstuddu mati á því hvernig tillagan falli að áherslum dómnefndar ásamt því að raða tillögum eftir gæðum þeirra að sínu mati.
Dómnefndin er þannig skipuð:
Ingibjörg Pálmadóttir formaður
Tilnefndir af Landspítala - háskólasjúkrahúsi:
Jóhannes M. Gunnarsson settur forstjóri LSH til 1. maí nk., svo lækningaforstjóri,
Ingólfur Þórisson framkvæmdastjóri skrifstofu tækni og eigna, LSH.
Tilnefndur af Háskóla Íslands:
Dr. Stefán B. Sigurðsson forseti Læknadeildar Háskóla Íslands.
Tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands (sbr. samning LSH og AÍ 23. mars 2005):
Málfríður Klara Kristiansen arkitekt,
Steinþór Kári Kárason arkitekt.
Án tilnefningar:
Ragnheiður Haraldsdóttir skrifstofustjóri heilsugæslu-, sjúkrahúsa- og öldrunarmála, (höfuðborgarsvæðið) í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
Framkvæmdasýsla ríkisins og skrifstofa tækni og eigna á LSH verða dómnefndinni til aðstoðar í störfum hennar. Jafnframt munu arkitektarnir Ásdís Ingþórsdóttir og Gíslína Guðmundsdóttir, starfsmenn Framkvæmdasýslu ríkisins, verða ritarar dómnefndar.