Opnuð var sýning á veggspjöldum í anddyri Landakots á fyrsta degi viku hjúkrunar á LSH með yfirskriftinni Hin ýmsu andlit hjúkrunar. Hjúkrunarfræðingar á öllum deildum öldrunarsviðs hafa tekið virkan þátt í undirbúningi hjúkrunarvikunnar. Á sýningunni má sjá í máli og myndum framlag hjúkrunar í þjónustu við aldraða og aðstandendur þeirra.
Veggspjöldin voru unnin af nokkrum hjúkrunarfræðingum þar sem brugðið er upp svipmynd af hjúkrun á deildum. Deildir á öldrunarsviði s.s. heilabilunardeildir, endurhæfingardeildir, bráðaöldrunardeild og líknardeild sýna þannig framlag hjúkrunar til þjónustu við aldraða. Einnig er saga hjúkrunar kynnt allt frá dögum St. Jósefssystra og að því virka rannsóknar- og vísindastarfi sem unnið er á sviðinu nú í þágu aldraðra.
Umsjón hafði Guðrún Dóra Guðmannsdóttir en ráðgjafar við veggspjaldagerð voru Hlíf Guðmundsdóttir og Rakel Valdimarsdóttir.
Samstarfsfólk á öðrum sviðum LSH er velkomið að koma og skoða sýninguna sem er opin til miðvikudags 11. maí.
Margar svipaðar veggspjaldasýningar eru uppi fyrir utan hinar ýmsu deildir víða á LSH þar sem hjúkrun er kynnt.
Mynd: Glaðbeittir hjúkrunarfræðingar sem tóku þátt í því að setja saman veggspjaldasýninguna á Landakoti.