Viðurkenning til ungra vísindamanna á LSH
Hringsalur 12. maí 2005
Sólveig Jónsdóttir taugasálfræðingur
Sólveig Jónsdóttir (f. 1949) starfar á endurhæfingarsviði LSH sem klínískur taugasálfræðingur. Megin starfsvettvangur hennar er taugadeild LSH í Fossvogi. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1969, B.A. prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1975 og fjallaði B.A. ritgerð hennar um einhverf börn. Mastersprófi (Master of Education, M.Ed.) í Educational Psychology lauk hún frá John Carroll University, Ohio í maí 1982. Að því búnu stundaði hún tveggja ára post-masters framhaldsnám við sama skóla í skólasálfræði á árunum 1982 - 1984 er lauk með löggildingu hennar sem skólasálfræðings. Námsárangur Sólveigar hefur hverju sinni verið glæsilegur. Á árunum 1997 - 1998 tók hún eins árs post-masters nám við the European Graduate School of Child Neuropsychology í Amsterdam sem lauk með diplóma í júní 1998. Lokaritgerð hennar fjallaði um taugasálfræðilega ágalla barna sem verða fyrir áhrifum áfengis í móðurkviði (Neuropsychological Deficits in Children Prenatally Exposed to Alcohol). Hún hlaut viðurkenningu heilbrigðisráðuneytisins sem sérfræðingur í klínískri barnasálfræði árið 2000 og í klínískri taugasálfræði barna sem undirgrein við klíníska barnasálfræði árið 2002.
Í gegnum tíðina hefur Sólveig starfað sem enskukennari, kennari í sálfræði, skólasálfræðingur, skólaráðgjafi og í því sambandi sinnt sérverkefnum varðandi unglinga. Hún hefur starfað sem yfirsálfræðingur hjá stofnunum Reykjavíkurborgar, verið klínískur barnasálfræðingur og síðustu 5 ár verið taugasálfræðingur á barna- og unglingageðdeild LSH ásamt störfum við heilaskaðateymi á endurhæfingardeild spítalans. Frá ársbyrjun 2005 hefur hún starfað sem almennur taugasálfræðingur á endurhæfingarsviði. Hún hefur einnig verið ráðgjafandi sálfræðingur við barna- og unglingageðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og unnið sem meðdómari og yfirmatsmaður við Héraðsdómsstóla Reykjavíkur og Reykjaness.
Sólveig hefur aukreitis mikla reynslu af stjórnunarstörfum. Auk þess að hafa verið fyrsti formaður Félags íslenskra skólasálfræðinga hefur hún setið í fagráði Landlæknis um geðvernd, námsmatsnefnd Sálfræðingafélags Íslands, svo og öðrum nefndum Landlæknisembættisins og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Hún hefur verið leiðbeinandi nemenda í sálfræði við Háskóla Íslands og haldið fjölmörg erindi um sálfræðileg vandamál.
Samhliða störfum á LSH hefur hún frá árinu 1999 stundað doktorsnám í klínískri taugasálfræði undir handleiðslu prófessoranna Joseph A. Sergeant Ph.D. og Erik J.A. Scherder Ph.D. við Óháða háskólann (Vrije Universiteit) í Amsterdam og Anke Bouma Ph.D. við Ríkisháskólann í Groningen í Hollandi. Doktorsrannsóknir hennar hafa beinst að ofvirkni og athyglisbresti meðal barna og einkennum sem koma fram meðal þess hóps er varðar málþroskaröskun og minnistruflanir. Rannsóknir hennar hafa einnig beinst að áhrifum raförvunar gegnum húð hjá þessum hópi.