"Efling geðheilsu eftir fæðingu: kynning á fyrstu þremur áföngum rannsóknarinnar" er yfirskrift málstofu á vegum Rannsóknastofnunar H.Í. og LSH hjúkrunarfræði sem verður haldin í stofu 201 á 2. hæð í Eirbergi, þriðjudaginn 7. júní 2005, kl. 8:30. Allir eru velkomnir.
Marga Thome, PhD, Brynja Örlygsdóttir, MSc, Anna Jóna Magnúsdóttir, BA
Útdráttur:
Tilgangur rannsóknarinnar Efling geðheilsu eftir barnsburð er að kanna líðan mæðra eftir að hjúkrunarfræðingar á heilsugæslustöðvum sækja netnámskeiðið ,,Geðvernd eftir barnsburð". Erlendar rannsóknir hafa sýnt að það getur dregið marktækt úr vanlíðan kvenna eftir barnsburð að fá þjónustu hjúkrunarfræðinga sem fengið hafa sértæka viðbótarmenntun í greiningu og meðferð slíkra vandamála. Síðan 2001 hefur heilsugæsluhjúkrunarfræðingum á Íslandi staðið til boða viðbótarmenntun á þessu sviði, þar sem leitast er við að dýpka þekkingu þeirra og skerpa meðferðarúrræði fyrir konur og fjölskyldur sem upplifa sálrænan og geðrænan heilsufarsvanda. Rannsóknin er unnin í 4 áföngum (2001 - 2005) og eru niðurstöður fyrstu þriggja áfanga kynntar. Hjúkrunarfræðingar á tilraunastöðvum sækja námskeiðið en ekki hjúkrunarfræðingar á samanburðarstöðvum. Á tilraunastöðvum fá konur stuðningsmeðferð hjá hjúkrunarfræðingum sem hafa sótt námskeiðið. Í úrtakinu eru konur sem sækja þjónustu rannsóknarstöðva og fá gildið =12 á Edinborgar-þunglyndiskvarðanum (EPDS) 9 vikum eftir barnsburð. Þátttakendur svara þremur spurningalistum 9, 15 og 24 vikum eftir barnsburð. Spurningalistarnir innihalda foreldrastreitukvarða, þreytukvarða, EPDS og fleira. Hjúkrunarfræðingar skrá hjúkrunargreiningar (NANDA) og meðferð (NIC) þátttakenda. Í úrtakinu voru 78 konur en 38 konur neituðu þátttöku. Meðalaldur var 28 ár.
Niðurstöður sýndu engan mun á þunglyndiseinkennum (EPDS), streitu (PSI/SF) og þreytu (Fatigue scale) kvenna í byrjun rannsóknarinnar. Hins vegar var marktækur munur á þunglyndiseinkennum kvenna í tilrauna- og samanburðarhóp 15 og 24 vikum eftir barnsburð. Það má álykta að stuðningsmeðferð hjúkrunarfræðinga hafi áhrif þar sem það dregur marktækt úr þunglyndiseinkennum kvenna í tilraunahópnum. Meðferðir sem voru marktækt oftar skráðar á tilraunastöðvum voru virk hlustun, ráðleggingar, andlegur stuðningur og slökun og er ályktað að það eigi þátt í bata kvennanna. Konur sem taka geðlyf voru með marktækt fleiri þunglyndiseinkenni 24 vikum eftir barnsburð en þær sem ekki voru á lyfjum. Marktækt tíðari tilvísanir til sérfræðinga á samanburðastöðvum virðast ekki draga úr vanlíðan þátttakenda.