Minningarsjóður Þorbjörns Árnasonar afhenti Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH) að gjöf 13,1 milljón króna við athöfn á Landspítala Hringbraut þriðjudaginn 28. júní 2005 til kaupa á nauðsynlegum búnaði vegna innleiðingar á nýrri tækni sem felst í því græða gervihjarta í sjúklinga.
Sjóðurinn var stofnaður af ástvinum og aðstandendum Þorbjörns til að heiðra minningu hans. Þorbjörn lést í kjölfar hjartasjúkdóms í nóvember 2003, aðeins 55 ára að aldri. Markmið sjóðsins er m.a. að safna og veita fjármuni til kaupa á tækjum fyrir hjartaskurðlækningadeild LSH en það var mikið baráttumál Þorbjörns meðan hann lifði. Sjóðurinn réðist í fyrrahaust í söfnun fyrir gervihjarta sem er ný tækni sem getur bjargað lífi fólks með hjartabilun. Í fyrsta lagi þeirra sem þurfa að bíða lengi eftir hjartaígræðslu, í öðru lagi þeirra sem haldnir eru hjartasjúkdómi sem gengur yfir ef hjartað fær að hvílast um tíma, nokkra mánuði eða ár og í þriðja lagi getur hjálparhjarta bjargað lífi sjúklinga sem ekki koma til greina til hefðbundinnar hjartaígræðslu, annað hvort fyrir aldurs sakir eða vegna annarra ástæðna svo sem skorts á líffærum til ígræðslu.
Söfnunin nefnist "Í Hjartastað" og hefur hún nú leitt til þess að á LSH hafa verið tekin fyrstu skref varðandi ígræðslu á gervihjörtum. Tæki sem keypt hafa verið, eða verða keypt fyrir tilstuðlan sjóðsins í tengslum við gervihjörtu, munu einnig nýtast við margar aðrar tegundir hjartaaðgerða.
Fénu var safnað með því að senda bréf til allra karlmanna á aldrinum 35 - 70 ára þar sem þeim var boðið að greiða andvirði eins sígarettupakka á mánuði í þrjú ár, þ.e. að gerast nokkurs konar áskrifendur að sjóðnum. Einnig var söfnunardagur (áskorunardagur) á Bylgjunni í nóvember auk þess sem seld voru í fyrirtækjum og apótekum blikkandi hjörtu sem tákn söfnunarinnar. Söfnunin náði ákveðnu hámarki með minningartónleikum í Háskólabíói þann 6. nóvember síðastliðinn. Sjóðurinn hefur líka verið styrktur myndarlega með frjálsum framlögum einstaklinga og öflugra fyrirtækja, t.d. Actavis Group, Vistor og KB banka og frímúrarareglan á Íslandi gaf líka 1 milljón króna í söfnunina. Auk alls þessa sömdu þeir sr. Hjálmar Jónsson og Jóhann Helgason "Hjartalagið". Það var gefið út á hljómdiski og selt í verslunum Bónus sem kostaði líka útgáfuna.
Í stjórn sjóðsins sitja sr. Hjálmar Jónsson formaður, Birna Sigurðardóttir (eftirlifandi eiginkona Þorbjörns), Árni Þór, Helga Hrönn og Atli Björn (börn Þorbjörns), Bjarni Torfason hjartaskurðlæknir, Hákon Hákonarson og Davíð Ingason.
Myndir:
Efri: Sr. Hjálmar Jónsson er formaður sjóðsstjórnarinnar. Hann afhenti Önnu Stefánsdóttur starfandi forstjóra LSH söfnunarféð.
Neðri: KB banki gaf eina milljón króna í söfnunina. Friðrik S. Halldórsson framkvæmdastjóri viðskiptasviðs bankans afhenti ávísunina. Aðrir á myndinni eru Birna Sigurðardóttir, Anna Stefánsdóttir, Hjálmar Jónsson og Jóhannes M. Gunnarsson.