Ómskoðun (áður kallað "sónar") á Íslandi hófst á Kvennadeild Landspítalans 1975. Þann 26. apríl 2005 var starfsemin flutt úr upphaflegu og alltof þröngu húsnæði í nýuppgerða deild á gangi 21B í Kvennadeildahúsinu. Á nýju deildinni er áhersla í starfseminni á ómskoðun í þungun og skyldar greiningaraðgerðir (s.s. legvatns- og fylgjuvefsástungur) og heitir deildin til samræmis við það nú fósturgreiningardeild 21B (e. prenatal diagnosis unit) kvennasviðs. Ómskoðanir vegna kvensjúkdóma eru aðskildar og fara fram á móttökudeild kvennasviðs.
Formleg opnun að viðstöddum heilbrigðisráðherra, formanni stjórnarnefndar, forstjóra, framkvæmdastjórnarmönnum, iðnaðarmönnum og starfsfólki kvennasviðs og ekki síst fulltrúum kvenfélagsins Hringsins og öðrum góðum gestum fór fram 31. maí.
Mjög vel er búið að nýju deildinni, bæði í húsnæði og tækjakosti, m.a. með dyggum stuðningi frá kvenfélaginu Hringnum, sem hefur endurtekið aðstoðað við að endurbæta tækjakost á deildinni. Því til viðurkenningar var ákveðið að ein skoðunarstofan nefndist "Hringsstofa" og var hún opnuð af fulltrúa félagsins. Jón Hannesson læknir, sem hóf ómskoðanir á Íslandi, opnaði með sama hætti "Jónsstofu".
Ávörp fluttu Reynir Tómas Geirsson prófessor og sviðsstjóri, Jón Kristjánsson heilbrigðismálaráðherra og Margrét I. Hallgrímsson sviðsstjóri. Reynir minntist sérstaklega góðrar gjafar ríkisstjórnarinnar frá árinu 2000 þegar eitt fullkomnasta ómtæki sem völ var á kom á deildina í tilefni 50 ára afmælis Kvennadeildar Landspítalans. Þá voru iðnaðarmönnum spítalans þakkaðar mjög vel unnar breytingar á deildinni.
Reynir Tómas Geirsson sviðsstjóri lækninga á kvennasviði ávarpar gesti við opnun fósturgreiningardeildar. |
Margrét I. Hallgrímsson sviðsstjóri hjúkrunar á kvennasviði ávarpaði gesti, þar á meðal Hringskonur en ein skoðunarstofan fékk nafn Hringsins og er hér verið að merkja Hringsstofu. |
|
Hringskonur hafa sýnt fósturgreiningardeild mikla ræktarsemi og fært henni stórgjafir. Nokkrar þeirra eru hér með Önnu Stefánsdóttur hjúkrunarforstjóra og Margréti I. Hallgrímsson sviðsstjóra hjúkrunar. |
||
Jón Hannesson læknir hóf ómskoðanir á Íslandi. Ein skoðunarstofan ber nafn hans, Jónsstofa. |
Hin nýja fósturgreiningardeild er mjög vel búin tækjum og til þess hefur hún meðal annars notið dyggs stuðnings Hringsins. |