Ákveðið hefur verið að taka starf og stefnu Landspítala - háskólasjúkrahúss til skoðunar í vinnuhópum starfsmanna á LSH. Frá sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík hafa verið lagðar línur um starf og stefnu á ýmsum deildum og sviðum LSH en ekki mótuð samræmd stefna fyrir starfsemi stofnunarinnar allrar varðandi markmið og leiðir. Framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd standa nú fyrir slíkri vinnu og verður kallaður til hennar fjöldi starfsmanna. Stjórnarnefnd hefur óskað eftir því að fá reglulega upplýsingar um framvindu verkefnisins sem er ætlað að standa yfir í vetur.
Fyrirhugað er að með þessu fáist leiðsögn í öllum helstu málaflokkum sem varða bæði klíníska þjónustu og annað starf á sjúkrahúsinu. Í því sambandi má nefna stefnu varðandi sérgreinar, göngu- og dagdeildir, þjónustu við almenning í víðum skilningi, vísindastarf, kennslu, fræðslu, stjórnun, starfsmannamál, gæðamál, aðstöðu sjúklinga og starfsfólks, tæknimál, búnað, rekstur og fleira.
Í hverjum málaflokki verður leitað til starfsmanna um framlag og skipaðir starfshópar um sérhvert málefni til að ná fram sem mestri hugmyndaauðgi og framtíðarsýn. Vinnan verður sem mest opin og upplýsingavefur LSH nýttur eins og kostur er í því sambandi. Skipaður verður stýrihópur til þess að hafa yfirumsjón með verkinu, samræma það sem fram kemur og tryggja að markmið verði raunhæf og í samræmi við lög og reglur. Stýrinefndinni verður líka falið að leita eftir og ná breiðri samstöðu meðal starfsmanna um stefnu og slagorð fyrir LSH. Haft verður samstarf við samtök sjúklinga um stefnumörkun í þjónustu og samskiptum við almenning.
Í tengslum við þessa vinnu verður einnig hugað að því hvernig best megi tryggja að unnið verði eftir stefnu spítalans og fylgst með því að sett markmið náist. Í því sambandi er bæði um að ræða innra eftirlit í starfseminni og samskipti við þá fjölmörgu sem hafa lögboðnar skyldur um eftirlit og mat á árangri og öryggi í starfi spítalans. Auk þess verði til athugunar meiri samanburður við erlend sjúkrahús og fleiri úttektir á starfseminni til opinberrar birtingar.