"Framkvæmdastjórn LSH hefur fengið fjölda kvartana frá vaktavinnufólki á sjúkrahúsinu vegna nýs leiðakerfis Strætó bs. Kvartanir lúta fyrst og fremst að því að strætisvagnar hætta að ganga kl. 23:00 nema stofnleiðir. Vaktavinnufólk á sjúkradeildum LSH lýkur störfum sínum á kvöldin kl. 23:30, um það bil 400 manns. Það er mjög bagalegt fyrir vaktavinnufólk sem notar strætó til og frá vinnu á LSH að einungis stofnleiðir gangi eftir kl. 23:00. Varlega áætlað hefur nýja leiðakerfið áhrif á um 50 - 80 vaktavinnumenn á hverju kvöldi á spítalanum sem nú eiga í erfiðleikum með að komast heim eftir kvöldvaktina. Þessi hópur dreifist á sjúkradeildir LSH, í Fossvogi, Hringbraut, Landakoti, Kópavogi, Kleppi og víðar, fyrst og fremst konur. Reykjavík er því miður ekki eins örugg og áður þannig að það vekur kvíða og hræðslu þessara kvenna að þurfa að ganga langar leiðir um miðnættið til að taka stofnleiðirnar og aftur frá biðstöð stofnleiðar inn í heimahverfi. Vetrarveður eru líka oft þannig að ekki er hægt að ætlast til þess að fólk gangi langa leið í eða úr strætisvagni.
Komið hefur fram að það sé fullur vilji til þess hjá stjórnarformanni Strætó bs. að koma til móts við þarfir vaktavinnufólks. Á fundi borgarráðs þann 11. ágúst sl. var því beint sérstaklega til stjórnar Strætó bs. að leita leiða til að lengja þjónustutíma til miðnættis. Forstjóri og framkvæmdastjórn LSH taka eindregið undir þetta og hvetja forsvarsmenn og stjórn Strætó til að endurskoða nýja leiðakerfið hið fyrsta og mæta þannig þörfum áðurgreinds hóps."
Komið hefur fram að það sé fullur vilji til þess hjá stjórnarformanni Strætó bs. að koma til móts við þarfir vaktavinnufólks. Á fundi borgarráðs þann 11. ágúst sl. var því beint sérstaklega til stjórnar Strætó bs. að leita leiða til að lengja þjónustutíma til miðnættis. Forstjóri og framkvæmdastjórn LSH taka eindregið undir þetta og hvetja forsvarsmenn og stjórn Strætó til að endurskoða nýja leiðakerfið hið fyrsta og mæta þannig þörfum áðurgreinds hóps."