Landspítali - háskólasjúkrahús tekur þátt í auknum viðbúnaði vegna menningarnætur í höfuðborginni laugardaginn 20. ágúst 2005. Búist er við miklum mannfjölda í miðborgina eða milli 60 og 100 þúsund manns.
Aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins verður virkjuð en í henni eru fulltrúar lögreglunnar í Reykjavík, LSH, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Reykjavíkurborgar, björgunarsveita og Rauða krossins. Hún verður í samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð meðan á hátíðinni stendur og fram undir morgunn. Guðbjörg Pálsdóttir aðstoðarmaður hjúkrunarforstjóra er fulltrúi LSH í aðgerðarstjórninni og til vara Einar Hjaltason læknir á slysa- og bráðasviði.
Framlag LSH vegna menningarnætur 2005 verður með eftirfarandi hætti umfram venjulega starfsemi:
1. Slysa- og bráðadeild í Fossvogi verður mönnuð aukalega af hjúkrunarfræðingum og lækni á kvöld- og næturvakt, sem ýmist verður í formi bakvakta eða bundinna vakta. Tekið er mið af mönnun á nýársnótt.
2. Fulltrúi LSH, Bára Benediktsdóttir aðstoðardeildarstjóri á slysa- og bráðadeild, verður í stjórnstöð aðgerðarstjórnar í Skógarhlíð. Henni til aðstoðar/varamaður verður Guðbjörg Pálsdóttir.
3. Enginn sérstakur viðbúnaður verður á öðrum bráðamóttökum spítalans.
Gerist eitthvað sem krefst frekari þátttöku LSH verður hópslysaáætlun sjúkrahússins virkjuð og starfað samkvæmt henni.